Jón Gerald fagnar Costco

Jón Gerald Sullenberger á von á því að versla við …
Jón Gerald Sullenberger á von á því að versla við Costco. mbl.is/Golli

Jón Gerald Sullenberger, kaupmaður í Kosti, tekur fréttum af opnun verslunar Costco fagnandi. Hann heimsótti verslunina í fyrradag og leist vel á. „Þetta er bara eins og að koma til útlanda,“ segir hann og bætir við: „Til hamingju, Íslendingar!“

Verslunin Kostur var opnuð í Kópavogi í nóvember 2009. Hún hefur frá upphafi lagt áherslu á amerískar vörur sem seldar eru í stórum pakkningum með tilheyrandi stærðarhagkvæmni. Bróðurparturinn af vörum Kosts kemur frá Costco í Bandaríkjunum og segir Jón enga breytingu verða á því.

Jón tekur aukinni samkeppni fagnandi og segir öllum áskorunum fylgja tækifæri. Hann bendir á að Kostur eigi í töluverðum viðskiptum við innlenda birgja og á hann von á að þau muni að einhverju leyti færast inn í Costco. „Ætli maður fari ekki bara að kaupa gosið í Costco?“ segir hann hugsi. Hann segir að Kostur hafi þegar ráðist í breytingar til að bregðast við harðnandi samkeppni. Costco-verslunin hér sé í grunninn bresk og mikið af þeim vörum sem þar séu seldar komi frá Bretlandi. Því hafi Kostur aukið framboð sitt af amerískum vörum til að bjóða neytendum upp á fleiri valkosti.

Ekki grætt neitt á þessari búð

Jón segir umræðu um verðlagningu á Íslandi að vissu leyti á villigötum. „Það er ekki hægt að ætlast til þess að kaupmaðurinn á horninu geti fengið sömu verð og næststærsti smásali í heiminum.“

Hann segir starfsfólk Kosts alltaf hafa lagt sig fram um að sinna kúnnum sínum. „Við höfum ekki grætt neitt á þessari búð,“ segir Jón Gerald að endingu.

agunnar@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert