Minnkandi markaðshlutdeild 365 miðla

Stöð 2 hefur misst niður forskot sitt á aðra frjálsa …
Stöð 2 hefur misst niður forskot sitt á aðra frjálsa ljósvakamiðla eins og Netflix og Sjónvarp Símans, sem nú hafa fleiri áskrifendur. mbl.is/Ómar Óskarsson

Hin óumflýjanlega skylduáskrift að Ríkisútvarpinu heldur ein velli í síbreytilegu umhverfi sjónvarpsmiðla, samkvæmt samrunaskrá vegna samruna Fjarskipta hf. og 365 miðla hf.

Stöð 2, sem bar áður höfuð og herðar yfir aðra einkamiðla á markaðnum, hefur misst stöðu sína til efnisveitunnar Netflix og er í dag eingöngu með rétt tæpan helming þeirra áskrifenda sem Netflix hefur á Íslandi, eða um 25.700. Þá hefur Sjónvarp Símans einnig tekið fram úr Stöð 2 með um 30 þúsund áskrifendur.

Fjármagn til efnisveita

Áætlað er að íslenskir neytendur greiði árlega um 675 milljónir króna fyrir aðgang að bæði Netflix og Hulu, en um fjögur þúsund heimili kaupa aðgang að Hulu og um 54 þúsund að Netflix. Sé einnig litið til Sky TV segir í samrunaskránni að frá því í febrúar 2014 bendi tölur til þess að um 5.100 heimili á Íslandi hafi áskrift að Sky. Meðaláskrift kostar um 7.900 krónur og eru tekjur vegna áskriftarsölu því um 40 milljónir á mánuði, eða samtals 483 milljónir á ári. Samanlagt er stærð Netflix, Hulu og Sky TV á Íslandi því hátt í 1.200 milljónir á ári.

Yfirburðir erlendra aðila

Talið er að sú þróun sem nú þegar er hafin með innkomu erlendra efnisveita og aðila á sjónvarpsmarkaði muni halda áfram. Ásamt því að vera í beinni samkeppni um áskrifendur hefur þeim íslensku fyrirtækjum fjölgað sem auglýsa hjá erlendum keppinautum íslensku sjónvarpsstöðvanna. Þannig hafa auglýsingatekjur innlendra aðila dregist saman sem því nemur. Þetta mun samkvæmt samrunaskránni þyngja enn frekar róðurinn á íslenska markaðnum.

Þessu til viðbótar er ljóst að markaðurinn er enn að taka breytingum og neyslumynstur að breytast. Þannig hefur bæst í hópinn efnisframleiðsla Nova Snapchat, sem talið er að 30 þúsund manns horfi á. Þá horfir stór hluti landsmanna á gríðarmikið efnisframboð Youtube. Segir í samrunaskýrslunni að markaðshlutdeild 365 hafi verið um 38,5 prósent í febrúar 2014 en sé nú á bilinu 30-35 prósent.

Áskriftarsjónvarp
» Töluvert fleiri með Netflix en áskrift að Stöð 2.
» Sjónvarp Símans fer upp fyrir Stöð 2 einnig.
» Íslenskir auglýsendur færa sig í auknum mæli yfir á erlendar efnisveitur.
» Markaðurinn enn að breytast, t.d. með tilkomu efnisframleiðslu Nova Snapchat .
» Markaðshlutdeild 365 var 38,5% í febrúar 2014 en er nú á bilinu 30-35%.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert