Sönnunargögnum í nauðgunarmáli fargað

mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Sönnunargögn í nauðgunarmáli sem lögreglan á Ísafirði rannsakaði fyrir tveimur árum bárust lögreglunni aldrei frá Fjórðungssjúkrahúsi Vestfjarða. Þeim var eytt áður en rannsókn málsins lauk að fullu.

Málið var fellt niður og aldrei var gefin út ákæra, að því er kemur fram í Fréttablaðinu í morgun.

Kona á þrítugsaldri leitaði aðhlynningar á sjúkrahúsinu í september 2014. Hún sagði að tveir aðfluttir menn hefðu nauðgað sér.

Vakthafandi læknir óskaði eftir því við lögreglu að fá svokallaðan nauðgunarpakka afhentan til að safna sönnunargögnum.

Að sögn lögreglustjórans á Vestfjörðum, Karls Inga Vilbergssonar, var um að ræða afleysingalækni. Læknirinn vildi ekki upplýsa lögreglu um hver brotaþoli væri því óvíst væri um kæru.

Konan kærði málið í byrjun desember sama ár en hinir grunuðu voru erlendis. Þeir voru kallaðir til yfirheyrslu við komu til landsins í febrúar. Þá var óskað eftir sönnunargögnum frá sjúkrahúsinu.

Fyrst greindi sjúkrahúsið frá því að sönnunargögnin hefðu verið afhent lögreglu.

Lögreglan á Vestfjörðum afhenti þá ríkissaksóknara málið með þeim orðum að sönnunargögnin hefðu glatast.

Þegar ríkissaksóknari óskaði eftir frekari gögnum um mitt sumar kom í ljós að gögnunum hafði verið fargað af sjúkrahúsinu þremur vikum áður.

Þolandinn hefur höfðað einkaréttarmál gegn mönnunum tveimur. Málið verður að öllu óbreyttu tekið fyrir í júní.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert