Risanafn úr hjólaheiminum keppir á Íslandi

Frá heimsókn Hesjedal til Íslands í apríl. Með honum á …
Frá heimsókn Hesjedal til Íslands í apríl. Með honum á myndinni eru Þorvaldur Daníelsson og Hafsteinn Ægir. Mynd/C Arnold Björnsson

Kanadíski hjólreiðamaðurinn Ryder Hesjedal verður meðal keppenda í Kia-gullhringnum í júlí, en hann sigraði meðal annars Giro D`Italia-keppnina árið 2012, en það er ein af þremur stærstu götuhjólakeppnum hvers árs og er samtals hjólað í 21 dag. Þá hefur hann einnig lent í fimmta sæti í Tour de France árið 2010, en það er stærsta hjólakeppni ársins. Íslenskt hjólreiðafólk mun því fá verðugan keppanda til að miða sig við í keppninni í ár.

Hesjedal kom hingað til lands í einn dag í apríl og hjólaði þá með Hafsteini Ægi Geirssyni keppnismanni og í kjölfarið bauðst honum að taka þátt í Kia-gullhringnum. Í tilkynningu frá mótshöldurum er haft eftir Hesjedal að hann líti á það sem skyldu sína sem afreksmanns í greininni að ferðast um heiminn og vekja athygli á íþróttinni, en hann ákvað seint á síðasta ári að hætta atvinnumennsku.

Kíkti við á Bessastöðum

Við komuna hingað til lands hjólaði Hesjedal meðal annars ásamt gestgjöfum sínum „Reykjavíkurhringinn“ en stærri útgáfa hans liggur meðal annars út á Álftanes. Var ákveðið að banka upp á á Bessastöðum og spyrja eftir forsetafrúnni, en þau eru bæði frá Kanada. Segir Hesjedal að það sé skrítið að geta hjólað upp að hurð og bankað og spurt eftir forsetafrú. Ekki varð honum þó að ósk sinni í það skiptið, en segir að gaman væri að hitta hana í sumar.

Árið 2012 sigraði Hesjedal stórkeppnina Giro D`Italia.
Árið 2012 sigraði Hesjedal stórkeppnina Giro D`Italia. Mynd/Wikipedia

Kia-gullhringurinn er nú haldinn í sjötta skipti, en keppnin hefur verið haldin á Laugarvatni frá því árið 2012. Hjólaðar eru þrjár mismunandi vegalengdir, frá 48 kílómetrum upp í 106 kílómetra. Hjólað er frá Laugarvatni og endað á sama stað. Þegar komið er í mark er jafnan slegið upp léttri veislu enda rúmlega 800 manns sem keppa árlega og síðustu tvö ár hafa verið um 3.000 gestir á Laugarvatni að keppa og fylgjast með keppninni. 

Keppti með Armstrong, Hincapie og Velte

Hesjedal á langan feril að baki en hann hætti sem fyrr segir atvinnumennsku eftir áralangan farsælan feril í fyrra. Hann hjólaði meðal annars með hinu goðsagnakennda US Postal Service-liði Lance Armstrong í upphafi síns ferils. Síðan hjólaði hann með liðum eins og Garmin Sharp og Garmin Cannondale og nú síðast Trek Segafredo. Meðal hjólreiðamanna sem hann hjólaði með voru meðal annars Lance Armstrong, George Hincapie, Christian Vande Velte á fyrri hluta ferils síns og seinna í TREK Segafredo með þeim Fabian Cancelara og Frank Schleck.

Nánar er rætt við Hesjedal í nýjasta hefti hjólreiðatímaritsins Pedalar sem kemur út á morgun.

Ryder Hesjedal verður meðal keppenda í Kia-gullhringnum í sumar.
Ryder Hesjedal verður meðal keppenda í Kia-gullhringnum í sumar. Mynd/Wikipedia
Ryder Hesjedal lauk atvinnumannaferli sínum hjá Trek-Segafredo-liðinu í fyrra.
Ryder Hesjedal lauk atvinnumannaferli sínum hjá Trek-Segafredo-liðinu í fyrra. Mynd/Wikipedia
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert