„Hann talaði um bátinn sem drullupung“

Halldór sendir Elliða Vignissyni bæjarstjóra tóninn í opnu bréfi.
Halldór sendir Elliða Vignissyni bæjarstjóra tóninn í opnu bréfi. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

„Það var leiðindamórall hérna fyrst gagnvart okkur, sérstaklega frá honum. Hann talaði um bátinn sem drullupung, sem einhvern lundaskoðunarbát úr Breiðafirði. Hann talaði svolítið niður til okkar allan tímann, þannig að hann hlýtur að geta tekið á móti þessu,“ segir Halldór Jóhannesson, yfirstýrimaður á Breiðafjarðarferjunni Baldri. Hann er ósáttur við tal Elliða Vignissonar, bæjarstjóra í Vestmannaeyjum, um ferjuna og getu hennar til flutninga.

Baldur hefur leyst Herjólf af í siglingunum á milli Vestmannaeyja og Landeyjahafnar síðastliðnar þrjár vikur, á meðan síðarnefnda ferjan var í slipp.

Halldóri sárnaði tal Elliða um Baldur, en Elliði sagði meðal annars ekki boðlegt að Baldur væri notaður í siglingar á milli lands og Eyja, enda væri ferjan með því „lakasta“ og hefði ekki „haffæri til að sigla til Þorlákshafnar“.

Baldri verður siglt aftur heim í kvöld og fer á áætlun á Breiðafirði á morgun. Halldór ákvað í kveðjuskyni að að senda bæjarstjóranum tóninn í opnu bréfi sem birtist á fréttamiðlinum Eyjar.net. Í bréfinu stendur meðal annars: „Það virðast allflestir Eyjamenn hafa skilning á þessu en alltaf eru einhverjir leiðindapungar í hverju partýi. Og þar fórst þú fremstur í flokki Hr. bæjarstjóri. Mér finnst persónulega að þú ættir að skammast þín og biðja áhöfn Baldurs afsökunar á þeim endalausu leiðindum og skítkasti sem þú hefur viðhaft opinberlega og víðar í okkar garð.“ 

Voru bara að vinna sína vinnu

Halldór tekur fram að bréfið sé aðeins frá honum sjálfum, en ekki fyrirtækinu eða öðrum úr áhöfninni. Ég ætlaði nú ekkert að fara með þetta út um allt. Ég ætlaði bara að setja þetta á síðuna hans, en hún var lokuð, þannig að það var ekki hægt. Ég setti þetta því á Eyjar.net,“ útskýrir Halldór. Hann viðurkennir einnig að það hafi verið ansi þungt yfir honum í morgun þegar hann birti bréfið.

„Hann sagði ekki boðlegt fyrir Eyjamenn að ferðast með þessu og að ferðaþjónustan myndi lamast. Við höfum hins vegar flutt allt sem við höfum verið beðnir um beggja megin og haldið okkar áætlun,“ segir Halldór sem er ánægður með störf áhafnarinnar á Baldri.

„Það er sjálfsagt hans starf sem bæjarstjóra að reyna að halda samgöngunum góðum, en við vorum bara að gera eins og við gátum. Við höfum verið að vinna okkar vinnu og teljum okkur hafa gert það vel. Það eru 99 prósent Eyjamanna sem eru ánægðir með okkur, en það er alltaf einn og einn leiðindanöldrari.“

Aðspurður hvort Elliði hafi sett sig í samband svarar Halldór því neitandi, enda gerir hann ekki ráð fyrir því.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert