Engar gjafir í úrslitum Útsvars

Spurningaþátturinn Útsvar nýtur mikilla vinsælda.
Spurningaþátturinn Útsvar nýtur mikilla vinsælda.

Liðin sem keppa til úrslita í Útsvari á RÚV í kvöld, Akranes og Fjarðabyggð, munu ekki skiptast á gjöfum eftir að keppni lýkur eins og venja er. Aðstandendur liðanna eru óánægðir með ákvörðunina. Austurfrétt greinir frá.

Upplýsingafulltrúi Fjarðabyggðar segist hafa fengið fyrirmæli um þetta á þriðjudag. Þá hafi verið búið að lofa fyrirtækjum að taka þátt í gjafaútdeilingunni. Hópunum hafi verið bent á að skiptast á gjöfum að útsendingu lokinni.

Helgi Jóhannesson útsendingarstjóri segir að liðum sé frjálst að skiptast á gjöfum að útsendingu lokinni og því sé ekki bannað að koma með gjafir. RÚV muni hins vegar afhenda sigurvegurum verðlaunagrip í kvöld og komið sé í veg fyrir gjafaútdeilingar liðanna til að útsendingin dragist ekki um of á langinn. Þá bætir hann við að engar athugasemdir hafi borist frá fulltrúa Akraness um fyrirkomulagið í kvöld.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert