Milljarðar í ný borgarhótel

Eitt af herbergjunum á Sandhótelinu.
Eitt af herbergjunum á Sandhótelinu. mbl.is/Kristinn Magnússon

Hátt í 200 hótelherbergi bætast við á Laugaveginum í þessum mánuði með opnun nýrra hótela. Sú viðbót er líklega án fordæma á svo skömmum tíma í sögu þessarar helstu verslunargötu landsins. Jafnast fjölgun herbergja til dæmis á við herbergjafjöldann á Hótel Sögu.

Nýjasta hótelið heitir Sandhótel en það er í nokkrum húsum á Laugavegi 32b-36. Til að byrja með verða 53 herbergi og bætast 13 við í haust. Með síðustu viðbótinni vorið 2018 verða herbergin orðin tæplega 80.

Ekkert hefur verið til sparað við byggingu hótelsins og eru til dæmis listaverk eftir þjóðþekkta myndlistarmenn á öllum herbergjum. Þá verður nýr veitingastaður, Lauf, opnaður á jarðhæð hótelsins á fimmtudaginn kemur.

Fæðingarstaður Laxness

Hótelið er í sjö byggingum og er ein þeirra, Laugavegur 32b, húsið þar sem Halldór Laxness fæddist 1902. Verður minningu skáldsins sýndur sómi á ýmsan hátt.

Þá hefur lúxushótelið ION City Hotel á Laugavegi 28 nýhafið starfsemi. Þar eru 18 herbergi og eru nokkur þeirra stórar svítur.

Mest munar um að ný álma í CenterHotel Miðgarði við Hlemm verður opnuð formlega um mánaðamótin. Þar voru 43 herbergi fyrir og bætast nú við 127 herbergi. Hafa mest um hundrað manns unnið að framkvæmdunum í sumarbyrjun.

Samtals bætast við um 200 herbergi með hótelunum þremur.

Að auki verður nýtt íbúðahótel opnað gestum í sumar í gamla Kjörgarði á Laugavegi 59. Þar verður nýr veitingastaður, líkt og á jarðhæð ION City Hotel. Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins má ætla að kostnaður við þessi fjögur verkefni sé ekki undir 2,5 milljörðum króna, að því er fram kemurí umfjöllun um hótelvæðingu Laugavegs í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert