Bjarni Benediktsson forsætisráðherra fundaði í dag með Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóra Atlantshafsbandalagsins, í tengslum við fund leiðtoga bandalagsins sem fram fór í Brussel. Á fundinum var rætt um þróun öryggismála, aukinn varnarviðbúnað og framlög til öryggis- og varnarmála.
í fréttatilkynningu frá forsætisráðuneytinu kemur fram að forsætisráðherra hafi gert grein fyrir stefnumótun stjórnvalda í öryggis- og varnarmálum, stofnun þjóðaröryggisráðs og aukinni þátttöku Íslands í störfum Atlantshafsbandalagsins. Þá var farið yfir þróun öryggismála á Norður-Atlantshafi og mikilvægi varnarinnviða á Íslandi í því samhengi. Vakti Bjarni einnig máls á mikilvægi þess að halda áfram að fylgja eftir jafnréttissjónarmiðum í starfi og aðgerðum bandalagsins.
„Það kom fram í máli framkvæmdastjórans að framlög Íslands og þátttaka í gegnum tíðina eru mikils metin. Hann lagði áherslu á mikilvægi forystu Íslands í jafnréttismálum innan bandalagsins. Við höfum verið að skerpa á stefnumótun og framkvæmd þjóðaröryggismála samhliða því að auka þátttöku í starfi bandalagsins á borgaralegum forsendum,“ er haft eftir Bjarna í tilkynningunni.