Natalía og Nadía dúxuðu í FG

Natalía Ýr Hjaltadóttir (t.h.) dúx FG og Nadía Helga Loftsdóttir …
Natalía Ýr Hjaltadóttir (t.h.) dúx FG og Nadía Helga Loftsdóttir semi-dúx. Þær voru báðar á náttúrufræðibraut. Ljósmynd/Gunnar Hólmsteinn Ársælsson

Natalía Ýr Hjaltadóttir er dúx Fjölbrautaskólans í Garðabæ þetta vorið með 9,62 í meðaleinkunn. Nadía Helga Loftsdóttir var með 9,57 í meðaleinkunn og er því semi-dúx. Þær voru báðar á náttúrufræðibraut.

Skólastarfi í Fjölbrautaskólanum í Garðabæ á vorönn var slitið í dag. Þá brautskráðust 93 nemendur af hinum ýmsu brautum skólans, flestir af listnámsbrautum, eða 29 talsins. 

Í ræðu sinni fjallaði Elísabet Siemsen, settur skólameistari og fyrsta konan sem gegnir starfinu, um starf kennarans og sagði meðal annars að það væru mikil forréttindi að fá að vinna með ungu fólki á þessu lífsskeiði. Hún sagði einnig að því miður nyti kennarastarfið ekki nægilegrar virðingar í íslensku samfélagi, en að hennar mati býr mikill mannauður í skólum landsins. Þá fjallaði hún enn fremur um mikilvægi og möguleika nýrrar tækni í skólastarfi og kennslu, að því er fram kemur í fréttatilkynningu.

Að venju voru haldnar ræður, tónlistaratriði flutt og verðlaun veitt fyrir góðan árangur í námi. Þar voru þær Natalía og Nadía einnig fremstar í flokki og hlutu fjölda verðlauna. Brynjar Björnsson, stúdent af náttúrufræðibraut, flutti ræðu nýstúdents. Tveir kennarar kvöddu skólann að þessu sinni, þær Margrét Kolka Haraldsdóttir dönskukennari og Anna Sjöfn Sigurðardóttir enskukennari. Þær hafa samanlagt kennt í vel yfir hálfa öld í skólanum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert