Íslenskan í sókn með Netflix

Þórir Snær Sigurjónsson.
Þórir Snær Sigurjónsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þórir Snær Sigurjónsson finnur fyrir því að það sé meiri áhugi á íslenskum kvikmyndum og sjónvarpsþáttum en áður var, mun meiri en þegar hann byrjaði að vinna sem kvikmyndaframleiðandi. Hann segir að það sé meðal annars fyrir tilstuðlan Netflix.

Þannig dreifast bæði þættir og myndir mjög víða. „Fólk er miklu opnara en það var fyrir því að horfa á þætti á öðrum tungumálum en ensku. Það fékk líka engan aðgang að því áður,“ segir hann en segja má að þessi þróun hafi byrjað ekki síst með velgengni danskra og sænskra glæpaþátta. Nýverið sló síðan norski unglingaþátturinn Skam í gegn víðar en í heimalandinu.

„Ég er að vinna að sjónvarpsþáttaröð í Svíþjóð og það var planið að gera hana á ensku en nú erum við ákveðin í því að gera hana á sænsku. Netflix og aðrir sem við tölum við vilja að við gerum þetta á sænsku,“ segir hann og bætir við að það sé bæði skemmtilegra og áhugaverðara.

Þórir Snær fór nýlega á fund með fulltrúa Netflix. „Hann sagði mér að Ísland væri í sókn. Hann hefur áhuga á þáttum frá Íslandi á íslensku. Mér finnst það frábært.“

Ameríska stjörnukerfið hrunið

Þórir Snær er ánægður með að starfa í Evrópu. „Ég er evrópskur kvikmyndagerðarmaður og lít á mig sem slíkan. Ameríska stjörnukerfið er hrunið en það sem mér finnst vera að koma í staðinn er eftirspurn eftir sértækara efni frá áhugaverðum menningarsvæðum og þar eigum við Íslendingar stór tækifæri og veitur eins og Netflix hjálpa okkur að komast í samband við umheiminn,“ segir hann.

 „Eins og þessi Coster-Waldau-mynd [3 Ting]. Við seldum hana strax í Berlín um allan heim til fyrirtækis sem selur myndir til Netflix og svoleiðis veitna fyrir háa upphæð. Það er frábært, þetta er bara lítil dönsk mynd gerð fyrir minnsta mögulega styrk sem hægt er að fá frá danska kvikmyndasjóðnum. Ég vil frekar að hún fari á Netflix eða Hulu út um allan heim heldur en að hún brenni inni í Danmörku eða á afmörkuðu svæði.“ 

Það tekur tíma að innsigla svona stóra samninga en fyrst núna í vikunni bárust fréttir af þessum samningi við California Films en Þórir Snær er staddur á Kvikmyndahátíðinni í Cannes. Hann er á hátíðinni meðal annars til að fylgja eftir myndum sem hann kemur að sem framleiðandi eins og fyrrnefndri 3 Ting og Ég man þig en hann segir að víða sé áhugi á síðarnefndu spennumyndinni.

Brauð&co í Vesturbæinn

Þórir Snær stofnaði hið vinsæla bakarí Brauð&co við Frakkastíg ásamt Ágústi Einþórssyni bakara og fleirum en þeir kynntust í Danmörku þar sem Þórir Snær býr.  „Þetta var aðeins meira mál fyrir Gústa því hann þurfti að flytja heim með alla fjölskylduna. Þetta var eins og bíómynd, hann var leikstjórinn og ég trúði á hann. Áætlanirnar voru nokkuð bjartsýnar en við fórum langt fram úr þeim. Ég held þetta hafi gengið vel því við vorum búnir að hugsa þetta vel fyrir fram, búnir að kanna markaðinn og ekki síst vegna þess að þetta var ekki gert fyrir túrista, þetta var gert fyrir Reykjavík, fyrir 101, ég held það hafi spilað inn í. Í raun snýst þetta um að mig langaði í ógeðslega gott sætabrauð á Íslandi! Þetta eru engin geimvísindi, þetta snýst um að baka daglega á staðnum, ég vil ekki fá þetta frosið eða frá einhverju miðlægu bakaríi,“ segir hann en svo virðist sem mjög margir aðrir hafi viljað sama hlut.

Brauð&co mun stækka á næstunni og það verður opnað bakarí inni í Gló í Fákafeni. „Það kemur líka í Vesturbæinn í lok árs,“ upplýsir Þórir Snær án þess að gefa meira upp. Enn fremur verður bakaríið með lítinn ofn í Mathöllinni við Hlemm sem opnar bráðlega.

Frumsýnir fimm myndir á tólf mánuðum

Þórir Snær er hins vegar núna í þeirri óvenjulegu aðstöðu að hann frumsýnir hvorki meira né minna en fimm myndir á tólf mánaða tímabili. Tvær þeirra hafa verið í sýningum á sama tíma hér, Undirheimar sem var frumsýnd í lok apríl og Ég man þig, spennutryllirinn eftir bók Yrsu Sigurðardóttur, sem hefur notið mikillar hylli í íslenskum bíóhúsum. Síðasta sumar var The Neon Demon frumsýnd, í haust var síðan kvikmyndin I blodet frumsýnd en hún fékk m.a. Bodil-verðlaun sem besta unglingamyndin, litla hryllingsmyndin Shelley kom út á svipuðum tíma og var líka tilnefnd, Undirheimar var frumsýnd í febrúar og um miðjan mánuðinn var 3 Ting frumsýnd með leikaranum Nicolaj Coster-Waldau, sem er þekktur úr Game of Thrones.

Þórir Snær er í ítarlegu viðtali við Sunnudagsblað Morgunblaðsins um helgina.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert