Hjálpar fólki að verjast tölvuþrjótum

Guðrún Valdís ásamt samnemendum sínum, þeim Daniel Wood og Rohan …
Guðrún Valdís ásamt samnemendum sínum, þeim Daniel Wood og Rohan Doshi, og leiðbeinanda þeirra dr. Nick Feamster, prófessor við tölvunarfræðideild Princeton-háskóla. Ljósmynd/Brian Mosley

„Við fengum tækifæri til að kynna rannsóknarverkefnið okkar á sýningu sem er kölluð CNSF Capitol Hill Exhibition þar sem fulltrúum á Bandaríkjaþingi ásamt fræðimönnum úr vísindaheiminum, til dæmis frá National Science Foundation, er boðið að vera viðstaddir kynningar á rannsóknarverkefnum.“

Þetta segir Guðrún Valdís Jónsdóttir sem stundað hefur BS-nám í tölvunarfræði við Princeton-háskóla í Bandaríkjunum undanfarin ár. mbl.is ræddi við Guðrúnu á sínum tíma þegar henni var boðin skólavist bæði við Princeton og Harvard-háskóla og stóð frammi fyrir því að þurfa að hafna öðru boðinu. Hún hefur einnig verið að gera það gott með félögum sínum í knattspyrnuliði skólans eins og mbl.is hefur fjallað um.

Guðrún Valdís lauk þriðja námsári við Princeton síðastliðið mánudagskvöld eftir að hafa tekið síðasta lokapróf vorannarinnar. Spurð nánar um verkefnið sem hún og tveir samnemendur hennar, Daniel Wood og Rohan Doshi, kynntu á sýningunni segir hún: „Þriðja árs nemar vinna að tveimur rannsóknarverkefnum, eitt á hvorri önn, sem kallast „Junior Papers“.“

Guðrún Valdís, Daniel Wood og Rohan Doshi samnemendur hennar ræða …
Guðrún Valdís, Daniel Wood og Rohan Doshi samnemendur hennar ræða við Rush Holt, fyrrverandi fulltrúardeildarþingmann og núverandi forstjóra American Association for the Advancement of Science (AAAS). Ljósmynd/Brian Mosley

Skilji íslensku út frá samhenginu

Fyrra rannsóknaverkefnið hennar á haustönninni snerist um að búa til hugbúnað sem getur hjálpað tölvum að skilja merkingu orða út frá samhengi þeirra. Að sögn Guðrúnar Valdísar skiptir það ekki síst máli þegar sama orð hefur fleiri en eina merkingu. Þá geta samhengisorð hjálpað. „Þetta hefur áður verið gert fyrir ýmis tungumál, til dæmis ensku og rússnesku, en vantaði hins vegar fyrir íslensku.“

Rannsóknarverkefnið á vorönninni hafi hinsvegar verið af talsvert öðrum toga. „Í vor var ég svo heppin að fá dr. Edward Felten sem leiðbeinanda, en hann starfaði sem aðstoðartæknimálastjóri fyrir Barack Obama, fyrrverandi forseta Bandaríkjanna, síðasta árið sem hann sat í embætti. Felten starfaði áður við kennslu við Princeton og kom síðan aftur þangað að kenna þegar hann lét af störfum fyrir forsetann.“

Guðrún Valdís skoðaði í síðara verkefni sínu ákveðinn öryggisgalla í sumum snjalltækjum sem tölvuþrjótar geta nýtt sér. Þar er um það að ræða að sumir framleiðendur snjalltækja láta ákveðin notendanöfn og lykilorð fylgja tækjum sínum þannig að sömu aðgangsupplýsingar ganga að mörgum tækjum af sömu tegund. Að hennar sögn er auðvelt að komast yfir þessar upplýsingar, til að mynda á netinu.

Guðrún Valdís útskýrir verkefnið fyrir France Córdove, formanni National Science …
Guðrún Valdís útskýrir verkefnið fyrir France Córdove, formanni National Science Foundation (NSF). Með á myndinni eru leiðbeinandi hennar dr. Nick Feamster og Rush Holt, fyrrverandi fulltrúardeildarþingmaður. Ljósmynd/Brian Mosley

Skannar kerfi og finnur tæki með veikleika

Tölvuþrjótar geta nýtt þennan galla til þess að safna slíkum tölvum saman í eins konar net (svokallað „botnet”) og nota þær til þess að gera samstillta árás á ákveðin tæki eða netsíður sem dæmi og þannig gert tækið eða síðuna óvirka. Guðrún Valdís segir að slíkar árásir hafi verið gerðar. Til að mynda hafi verið gerð slík árás í október á síðasta ári þegar slíkt net sem kallaðist Mirai var notað til þess að ráðast til að mynda á vefsíður Netflix, Amazon og fleiri. Stór hluti internetsins í Bandaríkjunum varð í kjölfarið óvirkur.

„Verkefnið mitt snerist um að finna leið til að sporna gegn afleiðingum þessa veikleika. Ég skrifaði forrit sem skannar netkerfi og finnur tæki með þennan veikleika. Ef hann finnst þá breytir kóðinn lykilorðinu að tækinu í handahófskenndan streng. Eftir að sjálfgefna lykilorðinu hefur verið breytt er ekki lengur hægt að brjótast inn í tæki með því að notfæra sér þennan sérstaka veikleika. Því verður ómögulegt að búa til botnet eins og Mirai,“ segir hún.

Guðrún Valdís tók síðan höndum saman við þá Wood og Doshi sem voru að vinna að hliðstæðum verkefnum og sameinuðu þau verkefnin og bjuggu til sérstakt tæki í þessum tilgangi.

„Tækið okkar miðar að því að hjálpa venjulegu fólki að fylgjast með öryggi snjalltækjanna sinna. Þetta tæki veitir yfirlit yfir öll snjalltækin sem tengd eru á heimilinu. Jafnframt upplýsingar um öryggi þegar kemur að lykilorðum, umferðinni sem fer í gegnum snjalltækin til að sjá hvort tækið sé tengt svona neti, og öryggi viðkvæmra persónuupplýsinga sem tækin senda frá sér.“

„Mikil þörf fyrir svona vöru“

Þau lögðu áherslu á að hafa notendaviðmót tækisins sem einfaldast. „Þannig munu notendur sjá grænan hnapp ef tækin þeirra eru örugg en rauðan ef þau eru það ekki. Það er svo hægt að ýta á hnappinn og fá upplýsingar um öryggisvandamál tækjanna og notandinn fær ráðgjöf um hvað hann getur gert í viðkomandi vandamáli. Það er mikil þörf fyrir svona vöru á markað. Alríkisráð viðskiptamála Bandaríkjanna stendur nú fyrir keppni þar sem hægt er að senda inn tæki sem þetta sem við vinnum nú að.“

Guðrún Valdís fyrir utan bandaríska þinghúsið í Washington, höfuðborg Bandaríkjanna.
Guðrún Valdís fyrir utan bandaríska þinghúsið í Washington, höfuðborg Bandaríkjanna. LJósmynd/Guðrún Valdís Jónsdóttir

Sýningin CNSF Capitol Hill Exhibition í Washington, höfuðborg Bandaríkjanna, á dögunum var kærkomið tækifæri til þess að kynna verkefnið segir Guðrún Valdís. „Við kynntum fyrir þeim tækið okkar og hittum þar þingmenn, vísindamenn og annað áhugavert fólk sem við gátum rætt við um internetöryggi og þær ráðstafanir sem þarf að gera þegar við kemur snjalltækjum til þess að tryggja öryggi heimila og stofnana.“

Þá fengu þau einkafundi með Joseph Kennedy, fulltrúadeildarþingmanni frá Massachusetts-ríki og Ed Markey, þingmanni öldungadeildar Bandaríkjaþings fyrir Massachusetts-ríki. „Síðan var það einnig mikill heiður að sendiherrahjón Íslands í Washington, Geir Haarde og Inga Jóna Þórðardóttir, gáfu sér tíma og ræddu við okkur sem mér þótti mjög vænt um og félögum mínum þótti mikið til þess koma.“

Þriðja námsárið sagt erfiðast

„Hér í Princeton gengur lífið sinn vanagang, hitinn er kominn upp yfir 30 gráður sem er heldur mikið fyrir Íslendinginn í mér. Þriðja árið einkenndist af enn meiri lærdómi en ég hef upplifað áður, en margir segja að það sé erfiðasta árið hér mér til mikillar gleði þar sem það þýðir vonandi að mér hefur tekist að komast í gegnum erfiðasta hjallann,“ segir Guðrún Valdís þegar talið berst að náminu almennt.

Hvað knattspyrnuna varðar sinnir Guðrún Valdís henni áfram samhliða náminu. Hins vegar hefur hún verið í fríi frá æfingum undanfarnar vikur þar sem reglur Ivy League-deildarinnar sem hún spilar í kveða á um að æfingum ljúki þegar upplestrarfrí nemenda hefst tveimur vikum fyrir lokapróf.

„Ég mun svo mæta aftur út um miðjan ágúst, um mánuði áður en skólinn byrjar, til að hefja æfingar að nýju.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert