Nichole brast í grát í ræðustól

Nicole sagði það oft erfitt að vera innflytjandi á Alþingi.
Nicole sagði það oft erfitt að vera innflytjandi á Alþingi. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Nichole Leigh Mosty, þingmaður Bjartrar framtíðar, brast í grát í upphafi ræðu sinnar á eldhúsdagsumræðum á Alþingi, sem standa nú yfir.

„Það hefur ekki alltaf verið auðvelt fyrir mig að vera innflytjandi á Alþingi og líklega hefur það ekki farið fram hjá neinum. Ég er ekki alltaf með allt á hreinu. Stundum mismæli ég mig,“ sagði Nicole og staldraði við til að jafna sig. Hún sagði að henni þætti merkilegt að flytja í fyrsta skipti ræðu á eldhúsdegi fyrir framan íslenska þjóð, sem innflytjandi af fyrstu kynslóð.

Einfaldara að vera í stjórnarandstöðu

„Ég er fulltrúi fyrir flokk sem situr í ríkisstjórn á tímum þegar það er einfaldlega ekki vinsæll kostur að vera við völd. Ég hef hugsað með sjálfri mér hvort það væri ekki bara einfaldara að vera í stjórnarandstöðu, vegna þess að ég er eins og ég er. Öðruvísi. Ég er nokkuð viss um að mínar frjálslyndu hugmyndir, eða hugmyndir sem samræmast minni reynslu og þekkingu myndu ekki fljúga jafnhátt ef við værum í stjórnarandstöðu. Það væri auðveldara að láta bara í sér heyra þegar það hentar í stað þess að takast á við mat á verkefnum sem fylgja því að axla ábyrgð. Þau velur maður nefnilega ekki.“

Tilfinningarnar báru Nicole ofurliði í ræðustól.
Tilfinningarnar báru Nicole ofurliði í ræðustól. Bragi Þór Jósefsson/Alþingi

Þegar hún flutti til Íslands fyrir 16 árum starfaði hún sem ræstitæknir, líkt og flestir innflytjendur, að hennar sögn. „Það var ekkert annað í boði fyrir manneskju eins og mig sem talaði næstum enga íslensku. Ég einangraðist og mætti fordómum oft og víða. En mjög margt hefur breyst og nú stend ég hér, þökk sé íslenska menntakerfinu.“

Ástfangin af menntakerfinu

Hún sagðist strax hafa orðið ástfangin af íslenska menntakerfinu, og sé enn. Hún hafi fulla trú á að við munum ná okkur á strik þrátt fyrir erfiðleika í kjölfar hrunsins. „Menntakerfið er lykilkerfið í samfélaginu öllu. Menntun er langbesta leiðin til að valdefla landsmenn á öllum aldri, hvaðan sem við komum. Við megum samt ekki gleyma að horfa líka til þeirra sem þurfa sérstaka hvatningu.“

Þetta væri mikilvægt í ljósi þess að við vissum það ekki fyrir fram í hvaða skóla næsti tvítyngdi innflytjandi sæti, sem myndi stíga fram í þinginu. Innflytjandi sem myndi sanna að við búum í landi þar sem allir hafa tækifæri til að fara eins langt og þá lystir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert