Ragnheiður á toppnum í Tennessee

Ragnheiður Sara Sigmundsdóttir stóð sig vel í Tennessee.
Ragnheiður Sara Sigmundsdóttir stóð sig vel í Tennessee. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ragnheiður Sara Sigmundsdóttir tryggði sér þátttökuréttinn á heimsleikunum í Crossfit með því að bera sigur úr býtum í undankeppni sem lauk í Tennessee í Bandaríkjunum í gær.

Á Facebook-síðu sinni segir Ragnheiður Sara að sér hafi liðið mjög vel á meðan á keppninni stóð og náði hún öllum markmiðum sínum.

„Þegar sjötta greinin var búin og ég fékk að vita að ég hefði unnið keppnina, þá gat ég ekki lýst þeirri gleði sem ég fann fyrir en ég er fyrst og fremst þakklát. Ég vil þakka öllum sem hafa verið til staðar fyrir mig, hafa þjálfað mig, æft með mér, stutt mig, styrkt mig fjárhagslega og hvatt mig áfram. Þið vitið hver þið eruð og ég vona að ég hafi gert ykkur stolt í dag,“ skrifaði hún.

Í lokin segist hún vera algjörlega tilbúin í heimsleikana, sem verða haldnir í byrjun ágúst. Fimm efstu í undankeppninni í Tennessee komast á leikana, þar sem fjörutíu karlar og fjörutíu konur etja kappi. 

Ragnheiður Sara varð þriðja á heimsleikunum í fyrra en Katrín Tanja Davíðsdóttir tók efsta sætið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert