Ósyndur og einn í djúpu lauginni

Suðurbæjarlaug í Hafnarfirði.
Suðurbæjarlaug í Hafnarfirði. Ljósmynd/Hafnarfjordur.is

„Við viljum brýna fyrir fólki með ósynd börn að þau séu með kúta. Börn eru á ábyrgð foreldra sinna þegar þau eru í sundi,“ segir Aðalsteinn Hrafnkelsson, forstöðumaður Suðurbæjarlaugar í Hafnarfirði, þar sem ungum dreng var bjargað frá drukknun í gær.

Aðalsteinn segir að drengurinn sé ósyndur og hafi verið einn í djúpu lauginni þegar atvikið átti sér stað. Var það sundlaugargestur á næstu braut sem kom auga á drenginn á botni djúpu laugarinnar og dró hann upp á bakka. Ekki þurfti að beita hjartahnoði þar sem hann var mjög skamma stund á botninum. Líðan hans núna er góð.

Lögregla er nú með málið í skoðun en samkvæmt upplýsingum frá Margeiri Sveinssyni, aðstoðaryfirlögregluþjóni hjá lögreglunni í Hafnarfirði, er ekkert sem bendir til þess að þarna hafi verið um annað en hreint óhapp að ræða. Sjúkra­lið og lög­regla komu á staðinn í gær og var drengurinn fluttur á sjúkrahús til aðhlynningar.

Mjög skamma stund á botninum

„Miðað við það sem við erum búin að sjá úr eftirlitsmyndavélum var hann á botninum í mjög skamma stund,“ segir Aðalsteinn, en farið verður betur yfir upptökur úr eftirlitsmyndavélum í dag og á næstu dögum. Segir hann eðlilegt að sundlaugargestur á næstu braut hafi rekið augu í drenginn áður en starfsfólk sundlaugarinnar hafi gert það.

Þá brýnir hann fyrir foreldrum að passa að ósynd börn séu ekki í djúpu lauginni án kúta. Rétt og snör handtök í þetta skiptið hafi orðið þess valdandi í þetta skiptið að allt fór vel.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert