„Þetta er bara ævintýri“

Hluti af íslenska hópnum í London í gær.
Hluti af íslenska hópnum í London í gær. Ljósmynd/ÍSÍ

„Við erum að gera heiðarlega tilraun til að ná Íslandsmetinu í að vera lengst frá Íslandi til San Marínó. Þá værum við að minnsta kosti komin með eitt Íslandsmet í þessari ferð,“ segir Finnur Freyr Stefánsson, körfuboltaþjálfari, sem er nú á leið á Smáþjóðaleikana í San Marínó ásamt 60 manna hópi íslenskra þátttakenda í körfubolta og sundi.

Hópurinn lenti á Heathrow-flugvelli í London í gær en vegna bilunar í tölvukerfi flugfélagsins British Airways komst hópurinn ekki með flugi sínu á áfangastað eins og til stóð. „Við fréttum strax um seinkanir svo ÍSÍ og Vita ferðir reyndu að finna aðrar leiðir til að koma okkur á áfangastað,“ segir Finnur.

30 klukkustundum síðar enn í Bretlandi

Auk bilunarinnar er löng helgi í Bretlandi vegna frídags, „bank holiday“ í dag, og því margir á faraldsfæti. Ákveðið var því að reyna að koma hópnum með flugi eða lest til Frakklands. Er sú ferð áætluð í dag og þurfti hópurinn því að gista í London í nótt. Hópurinn er nú kominn í rútu á leið til Dover í Bretlandi þar sem farið verður með ferju yfir Ermasundið, til Calais í Frakklandi. Þegar komið verður til Frakklands mun taka við rútuferð til Brussel þar sem hópurinn vonast til að komast í flug til Flórens eða Bologna á Ítalíu. Loks mun þá taka við rútuferð til San Marínó þar sem leikarnir fara fram.

„Við lögðum stað úr Laugardalnum í gær og núna þrjátíu klukkustundum seinna erum við ekki enn komin úr Bretlandi,“ segir Finnur og viðurkennir að hópurinn hafi seint búist við því að þurfa að ferðast með þessum hætti. Þó segir hann mikla jákvæðni vera á meðal þátttakenda. „Það eru allir léttir hér.“

Finnur Freyr Stefánsson, körfuboltaþjálfari.
Finnur Freyr Stefánsson, körfuboltaþjálfari. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Við Íslendingar látum þetta ekki á okkur fá“

Setn­ing­ar­hátíð leikanna fer fram í kvöld, en mót hefjast á morgun. Fyrstu ferðir sundmanna eru klukkan níu í fyrramálið, en körfuboltaleikir hefjast seinni partinn. Mun íslenska karlaliðið keppa klukkan þrjú og kvennaliðið klukkan hálf sex. Finnur segist vonast til þess að hópurinn verði kominn á áfangastað í kvöld, svo allir muni mæta ferskir til leiks á morgun. „En þó við þyrftum að fara beint úr rútunni á leikina þá myndum við bara gera það.“

Finnur segir Íslendingana ekki láta þetta á sig fá, og hópurinn hafi sýnt mikla þolinmæði. „Þetta er bara ævintýri og við Íslendingar látum þetta ekki á okkur fá.“

Íslenskir keppendur eru 136 talsins, en 894 keppendur eru skráðir til þátttöku á Smáþjóðaleikunum, sem standa yfir til 3. júní. Restin af hópnum skilaði sér til San Marínó í gærkvöldi. Ekki komst þó allur farangur hópsins á leiðarenda, en spjót og stangir urðu til dæmis eftir í Amsterdam. Hluti starfsfólks ÍSÍ beið því eftir farangrinum á flugvellinum í Bologna og gátu íslenskir þátttakendur í frjálsíþróttum því sofnað sáttir vitandi að farangurinn væri væntanlegur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert