WOW citybike opnar í Reykjavík

Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, og Skúli Mogensen, forstjóri WOW air.
Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, og Skúli Mogensen, forstjóri WOW air. Ljósmynd/Aðsend

Flugfélagið WOW air mun í samvinnu við Reykjavíkurborg opna hjólaleiguna WOW citybike í Reykjavík um miðjan júní.

Almenningi gefst þar með tækifæri til að nýta sér umhverfisvænar samgöngur og upplifa Reykjavík frá öðru sjónarhorni, að því er kemur fram í tilkynningu frá flugfélaginu.

Þar segir að WOW air hafi um árabil vakið athygli á hvers kyns leiðum fyrir fólk til þess að tileinka sér heilbrigðari lífsstíl, til dæmis með WOW Cyclothon hjólreiðakeppninni. Þetta framtak sé eðlilegt framhald af þeirri hugsjón. Hjólaleiga sem þessi er vel þekkt fyrirkomulag víða um heim og margir sem kjósa að nýta sér slíka þjónustu.

„Hjólreiðar eru frábær ferðamáti sem hafa stöðugt verið að aukast enda bæði góðar fyrir heilsu og umhverfið.  Við erum stolt af því að hafa lagt okkar að mörkum fyrst með WOW Cyclothon og núna með tilkomu WOW citybike sem án efa á eftir að setja lit á umhverfið og skapa skemmtilega og lifandi stemmningu í Reykjavík. Ég vil einnig þakka Reykjavíkurborg fyrir að vinna með okkur í að láta þennan draum rætast,“ segir Skúli Mogensen eigandi og forstjóri WOW air, í tilkynningunni.

Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, segist mjög spenntur fyrir nýju hjólaleigunni. „Reiðhjólaleiga í Reykjavík er það sem við höfum verið að vinna að og samstarfið við WOW air hefur gengið mjög vel. Nú tökum við þetta verkefni föstum tökum, borgin leggur til land fyrir aðstöðuna og WOW air sér um hjólin, stöðvarnar og rekstur þeirra. Reiðhjólin sjálf eru mjög góð, sterkbyggð en auðvelt að hjóla á þeim. Ég vona að íbúar og gestir borgarinnar taki þessari nýjung vel og hjóli nú um alla borg“ segir Dagur í tilkynningunni.

Átta hjólastöðvar með 100 hjólum verða settar upp í eða við miðbæ Reykjavíkur og hægt verður að skila hjólinu á hvaða stöð sem er óháð því hvar það er leigt. Þá verður hægt að hlaða niður snjallforriti sem sýnir staðsetningar stöðvanna og fjölda hjóla á hverri stöð. Greitt er með kreditkorti á leigustöðvunum en einnig verður boðið upp á áskriftarleiðir.

GÁP mun sjá um viðhald á hjólunum en framleiðandinn er PBSC. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert