Látið renna í bjórbað á Árskógssandi

Í heita pottinum fyrir utan nýju heilsulindina á Árskógssandi í …
Í heita pottinum fyrir utan nýju heilsulindina á Árskógssandi í dag. Karlarnir eru, frá vinstri, Jakob Helgi Bjarnason, Halldór Óli Kjartansson og Stefán Gunnarsson. Fyrir aftan stendur Agnes Anna Sigurðardóttir, framkvæmdastjóri Kalda. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Fyrstu bjórböðin hérlendis voru tekin í notkun í dag á Árskógssandi við Eyjafjörð. Það eru eigendur bruggsmiðjunnar Kalda sem standa að rekstrinum og margir gestir lögðu leið sína í nýtt húsnæði þar sem starfsemin fer fram, þáðu veitingar og skoðuðu sig um. 

Alls eru sjö ker þar sem hægt verður að fara í bjórbað, annaðhvort einn í einu eða tveir. Í húsinu er einnig veitingastaður þar sem eru sæti fyrir 80 manns. Fyrir utan er stór heitur pottur. Ekkert aldurstakmark verður í bjórbaðið enda er vökvinn ódrykkjarhæfur, en 16 ára og yngri verða að koma í fylgd með fullorðnum. 

Þegar gestir vilja njóta þessarar bjórheilsulindar á Árskógssandi er fyrst farið í stórt ker, sem fyllt er af bjór, vatni, humlum og geri, í 25 mínútur. Að því loknu er slakað á í sérstöku herbergi í aðrar 25 mínútur. 

Eigendur fyrirtækisins halda því fram að baði fólk sig í ungum bjór og lifandi bjórgeri, og skoli ekki af sér fyrr en nokkrum klukkustundum síðar, hafi það mikil áhrif á bæði líkamann og húðina. Meðferðin er m.a. sögð hreinsandi fyrir húðina og geti einnig haft jákvæð áhrif á heilsuna.

Agnes Anna Sigurðardóttir, framkvæmdastjóri Kalda, hefur sagt að með uppátækinu vilji eigendurnir auka framboð á afþreyingu á svæðinu en um 12 þúsund ferðamenn koma orðið árlega í heimsókn í Bruggsmiðjuna, vilja skoða sig um og smakka á framleiðslunni. 

Bjórböðin eru að tékkneskri fyrirmynd en Agnes segir þau einnig vinsæl í löndum eins og Slóvakíu og Þýskalandi. Körin koma þannig sérsmíðuð frá Þýskalandi.

Látið renna í eitt bjórkaranna sjö. Starfsmennirnir eru Ragnheiður Guðjónsdóttir, …
Látið renna í eitt bjórkaranna sjö. Starfsmennirnir eru Ragnheiður Guðjónsdóttir, til vinstri, og Margrét Arnþórsdóttir. mbl.is/Skapti
Horft yfir hluta veitingasalarins þar sem sæti eru fyrir 80 …
Horft yfir hluta veitingasalarins þar sem sæti eru fyrir 80 manns. mbl.is/Skapti
Bjórheilsulindin og veitingastaðurinn eru í nýju húsnæði, sem smíðað var …
Bjórheilsulindin og veitingastaðurinn eru í nýju húsnæði, sem smíðað var sérstaklega fyrir reksturinn. mbl.is/Skapti
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka