Eins og stjarna á himninum

Ásta Dóra Finnsdóttir á lokatónleikum og skólaslitum Allegro Suzuki-tónlistarskólans í …
Ásta Dóra Finnsdóttir á lokatónleikum og skólaslitum Allegro Suzuki-tónlistarskólans í fyrrakvöld mbl.is/Hanna

Ásta Dóra Finnsdóttir, 10 ára píanóleikari, varð í 4.-5. sæti í flokki 10 ára og yngri á alþjóðlegri píanókeppni í Szafarnia í Póllandi á dögunum og fékk sérstaka viðurkenningu fyrir árangurinn. Keppnin, sem nú var haldin í 25. sinn, er kennd við Fryderyk Chopin og voru 55 börn og unglingar víðs vegar að úr heiminum valdir samkvæmt ferilskrá úr fjölda umsækjenda til keppni í þremur aldursflokkum.

„Þetta er fyrsta keppnin mín í útlöndum,“ segir Ásta og leggur áherslu á að hún hafi upplifað margt nýtt. Sérstaklega hafi áskorunin verið meiri en hún hafi átt að venjast heima. „Svo eignaðist ég vini frá Japan, Singapore, Þýskalandi og alls konar.“ Finnur Þorgeirsson, faðir Ástu, bætir við að í raun hafi hún fengið tækifæri í þessari keppni til þess að bera sig saman við bestu píanóleikara heims á þessum aldri og það hafi verið ómetanleg reynsla.

Ásta hefur verið í píanónámi í tæplega sex ár. Hún byrjaði undir handleiðslu Önnu Fossberg Kjartansdóttur í Suzuki-deild Tónlistarskólans á Álftanesi og ári síðar fór hún í Allegro Suzuki-tónlistarskólann í Reykjavík. Þar var hún áfram með Önnu sem kennara fyrsta árið en hefur síðan notið kennslu Kristins Arnar Kristinssonar. Þó að hún sé aðeins 10 ára byrjaði hún í framhaldsnámi í fyrra og er í formlegu framhaldsnámi eftir að hafa lokið grunnprófi og prófi á miðstigi.

Draumur að veruleika

Ásta hélt sína fyrstu einleikstónleika á Barnamenningarhátíð í Hörpu fyrir um mánuði og var það jafnframt formleg útskrift hennar úr sjöundu og síðustu bók námsins í Suzuki. Hún var verðlaunahafi Nótunnar árin 2014, 2015 og 2016 og sigraði í sínum flokki í EPTA-keppninni 2015. „Að vera píanisti er draumur sem mig hefur alltaf langað til þess að vera,“ segir hún.

Ásta Dóra Finnsdóttir og Kristinn Örn Kristinsson kennari.
Ásta Dóra Finnsdóttir og Kristinn Örn Kristinsson kennari. mbl.is/Hanna

Píanónámið útheimtir mikla þrautseigju og æfingu en Ásta sér ekkert nema ánægju við áhugamálið. „Þetta er allt svo skemmtilegt, en mér finnst skemmtilegast að sýna hver ég er þegar ég spila á píanóið. Ég ímynda mér hvað er að gerast í laginu sem ég er að spila hverju sinni og þá finnst mér ég skína eins og stjörnur á stjörnuhimninum.“

Ásta segir að hún hafi átt leikfangapíanó sem lítið barn og það hafi kveikt áhugann. „Ég man ekki alveg af hverju ég byrjaði að spila en mér fannst áhugavert að spila á leikfangið þótt það hafi ekki verið alvöru píanó. Svo sendu pabbi og mamma mig í tónlistarskóla og það virkaði vel.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert