Í samræmi við sérákvæði og þingsköp

Helgi Bernódusson hefur verið skrifstofustjóri Alþingis frá árinu 2005.
Helgi Bernódusson hefur verið skrifstofustjóri Alþingis frá árinu 2005. Morgunblaðið/Golli

„Ég get aðeins sagt að það var mjög vandað til undirbúnings atkvæðagreiðslunnar á fimmtudaginn og hugað vel að öllum atriðum og orðalagi,“ segir Helgi Bernódusson, skrifstofustjóri Alþingis.

Til­lög­ur Sig­ríðar Á. And­er­sen dóms­málaráðherra um skip­an dóm­ara í Lands­rétt sem samþykktar voru á Alþingi í fyrradag. Fjallað hefur verið um sérstakt bráðabirgðaatkvæði í lögum um dómstóla sem segir að þegar ráðherra geri tillögu um skipun í embætti dómara við Landsrétt í fyrsta sinn skuli hann leggja tillögu sína um hverja skipun fyrir Alþingi til samþykktar. Því hefur verið kastað fram að Alþingi hefði átt að taka afstöðu til hvers og eins umsækjenda um embætti dómara við Landsrétt en ekki lista allra fimmtán.

„Hér var nýmæli á ferð; hér þurfti ekki aðeins að huga að þingsköpum heldur einnig lögum um dómstóla en þar segir að Alþingi eigi að greiða atkvæði um „hvert“ dómaraefni sem ráðherra gerir tillögu um.“

Helgi segir að áður en atkvæðagreiðslan hófst hefði forseti Alþingis kannað hug formanna þingflokka og fleiri til fyrirkomulags atkvæðisgreiðslunnar. Skjalið frá nefndinni hafi verið þannig sett upp að gerð sé tillaga um hvern einstakling, í tölusettum liðum, þannig að atkvæðagreiðslan gæti farið fram um hvern einstakling. 

„Fram kom, bæði í samtölum manna og á þingfundinum, að þingmenn myndu allir greiða eins atkvæði um hvern einstakling í tillögunum. Þingforseti ítrekaði svo formlega á þingfundinum við upphaf atkvæðagreiðslunnar að hún gæti farið fram um hvern og einn. Engin athugasemd kom fram, engin ósk um "uppbrot" á tillögu nefndarinnar í atkvæðagreiðslunni eins og þó oft er gert,“ segir Helgi. 

Í samræmi við sérákvæði

Hann segir að þegar svo standi á að þingmenn greiði eins atkvæði um mörg atriði, t.d. margar greinar í lagafrumvarpi, sé samkvæmt þingsköpum og langri þingvenju atkvæðagreiðslu hagað þannig að ein atkvæðagreiðsla fari fram um greinarnar eða töluliðina í einu. 

„Úrslit atkvæðagreiðslunnar gildir þá fyrir hvert atriði, hverja grein, hvern tölulið og í þessu dæmi fyrir hvert dómaraefni. Hér var því í einu og öllu farið að þingsköpum, þingvenjum og sérákvæði í dómstólalögum.“

Telur Helgi rétt að vekja á athygli á því að ráðherra hefði gert tillögur um 15 dómara en nefndin tillögu um afgreiðslu málsins, eins og henni bar í samræmi við þingsköp. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert