Sek um að valda slysi á vanbúnum bíl

Slysið varð á Hellisheiði í nóvember 2014. Mynd úr safni.
Slysið varð á Hellisheiði í nóvember 2014. Mynd úr safni. mbl.is/Rax

Hæstiréttur staðfesti á fimmtudag dóm Héraðsdóms Suðurlands yfir konu og manni fyrir að hafa ekið um á vanbúnum bíl og valdið slysi á Hellisheiði árið 2014 með þeim afleiðingum að ökumaður og farþegi bifreiðar sem kom úr gagnstæðri átt slösuðust.

Í héraði voru þau fundin sek um almenn hegningarlagabrot og brot gegn ýmsum ákvæðum umferðarlaga með því að hafa „ekið bifreið í hálku og krapi án þess að gæta nægilegrar aðgæslu, of hratt miðað við aðstæður í afturdrifi og á slitnum hjólbörðum sem hvoru tveggja hafði slæm áhrif á aksturseiginleika bifreiðarinnar,“ líkt og segir í dómnum.

Að því er fram kemur í dómi héraðsdóms missti konan stjórn á bifreiðinni og fór yfir á rangan vegarhelming með þeim afleiðingum að hún lenti á tveimur bifreiðum og slösuðust ökumaður og farþegi í þeim. Hlýtur konan 30 daga fangelsisdóm, skilorðsbundinn til tveggja ára.

Konunni er gefið að sök að hafa, á leið sinni vestur Suðurlandsveg á Hellisheiði í nóvember 2014, orðið völd að árekstri við tvær bifreiðar sem komu úr gagnstæðri átt með þeim afleiðingum að ökumaður annarrar bifreiðarinnar sem kom úr gagnstæðri átt hlaut rifbeinsbrot og farþegi í sömu bifreið hlaut brot á bringubeini og mörg brot á brjósthrygg.

Þá er maðurinn, sem skráður eigandi bifreiðarinnar, sakfelldur fyrir að hafa ekki gætt þess að bifreiðin væri í lögmæltu ástandi og gert að greiða 20.000 krónur í sekt, en maðurinn var skráður eigandi bílsins en bíltæknirannsókn leiddi í ljós að orsök slyssins megi fyrst og fremst rekja til ófullnægjandi ástands hjólbarða ásamt því að ökutækið var aðeins í afturhjóladrifi í stað fjórhjóladrifs. Þá er ákærðu gert að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert