Gista á bannsvæðum í þjóðgarðinum

Meðal þeirra svæða sem bannað er að gista á er …
Meðal þeirra svæða sem bannað er að gista á er bílastæðið við Dettifoss. Sigurður Bogi Sævarsson

Nokkur fjöldi erlendra gesta gistir á svæðum innan Vatnajökulsþjóðgarðs sem ekki eru ætluð til gistingar, en samkvæmt lögum þjóðgarðsins er aðeins heimilt að gista á sérmerktum tjaldsvæðum. Guðrún Jónsdóttir, aðstoðarmaður þjóðgarðsvarðar á norðursvæði þjóðgarðsins, segir í samtali við mbl.is að landverðir muni í sumar fara um svæðið og rukka þá sem ekki gisti á leyfilegum stöðum. Engin sekt liggur hins vegar við slíku broti, en Guðrún segir að skoða mætti hvort rétt væri að gera það.

Guðrún segir að starfsmenn garðsins hafi í fyrra farið um og rukkað ferðamenn á hverjum degi sem gistu utan tjaldsvæðis. Segir hún þessa gesti vera á svæðum þar sem engin klósett eru og því geri þeir þarfir sínar oftar en ekki á viðkomandi stað, sem getur verið við bílastæði, útskot eða á öðrum stöðum innan garðsins.

Ekki er byrjað að rukka utan tjaldsvæðanna í ár að sögn Guðrúnar, en auka greiðsluposar séu á leiðinni og yfir háönn verði slíkt gert daglega. Hún segir að umræddir gestir séu oftast þeir sem ferðist í svokölluðum svefnbílum (e. campers) Hún segir ferðamenn sem gisti í tjöldum aftur á móti nærri undantekningalaust gista á merktum tjaldsvæðum.

Hljóðaklettar í Vatnajökulsþjóðgarði.
Hljóðaklettar í Vatnajökulsþjóðgarði. Mynd/Brynjar Gauti

Gjaldið sem rukkað er fyrir að gista ólöglega er hið sama og kostar að gista á tjaldsvæðum að sögn Guðrúnar. Aðspurð hvort einhver sekt væri fyrir slíkt athæfi segir hún að svo sé ekki, en að það væri eitthvað sem mætti vel skoða.

Hún segir þá gesti sem séu rukkaðir utan tjaldsvæða venjulega telja gjaldið hátt, enda hafi þeir búist við að geta gist ókeypis og telji þjóðgarðsmörkin ekki nógu skýr. Guðrún segir að fjöldi skilta sé um allan þjóðgarðinn, en líklega megi alltaf bæta um betur. Þó telji hún það einnig á ábyrgð ferðamanna sem komi á ný svæði að kynna sér hvar megi gista og hvar ekki.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert