Ekki einkamál heldur opinbert skjal

Fram kemur í reglum forsætisnefndar og leiðbeiningunum að ekki er …
Fram kemur í reglum forsætisnefndar og leiðbeiningunum að ekki er gerð önnur krafa en að merkja skuli umsögn greinilega með nafni sendanda, dagsetningu, númeri og heiti þingmáls. Ekki er gerð krafa um að fram komi kennitala eða önnur auðkenni þess sem veiti umsögn. mbl.is/Golli

Persónuvernd hefur úrskurðað að birting Alþingis á upplýsingum um mann sem sendi inn umsögn um þingmál hafi verið í samræmi við persónuverndarlög. Maðurinn var ósáttur við að persónuupplýsingar, s.s nafn og kennitala, sem birtust á vef þingsins, hafi jafnframt verið aðgengilegar við leit í leitarvél Google.

Úrskurður Persónuverndar féll 25. apríl en hefur nú verið birtur á vef stofnunarinnar. Þar segir, að manninum hafi mátt vera það ljóst, þegar hann sendi umrædda umsögn, að hún yrði opinbert skjal sem almenningur hefði aðgang að, auk þess sem hann sjálfur valdi að birta þar kennitölu sína, en fyrir liggi að Alþingi krefjist ekki slíkrar auðkenningar.

Maðurinn kvartaði til Persónuverndar í ágúst í fyrra. Í kvörtuninni segir meðal annars að þegar leitað sé eftir nafni hans á leitarvél Google komi upp tilvísun til PDF-skjals á vefsvæði Alþingis. Um sé að ræða umsögn sem maðurinn sendi Alþingi en undir umsögnina ritaði maðurinn nafn sitt og kennitölu. Hann hafi þó aldrei gefið leyfi fyrir því að umsögnin yrði birt á netinu. Að mati mannsins eigi Alþingi að haga málum á þann veg að upplýsingar á vef þingsins birtist ekki í leitarniðurstöðum hjá Google. Þarna komi fram ákveðnar upplýsingar um manninn sem geti komið sér illa ef hann sæki um starf þar sem slíkt hæfi ekki eða sé ekki vinnuveitanda að skapi. 

Starf löggjafans eigi að vera opið og lýðræðislegt

Skrifstofustjóri Alþingis segir í svarbréfi sem var sent til þingsins í september 2016, að að baki birtingar umsagna um þingmál búi þau sjónarmið að löggjafarstarfið skuli vera opið og lýðræðislegt. Þá segir í bréfinu að reglur forsætisnefndar og leiðbeiningarnar séu aðgengilegar á vefsíðu Alþingis. Eins komi fram í reglum forsætisnefndar og leiðbeiningunum að ekki sé gerð önnur krafa en að merkja skuli umsögn greinilega með nafni sendanda, dagsetningu, númeri og heiti þingmáls. Ekki sé gerð krafa um að fram komi kennitala eða önnur auðkenni þess sem veiti umsögn.

Í bréfinu segir enn fremur að maðurinn hafi verið í samskiptum við skrifstofu Alþingis í febrúar 2016 vegna birtingar kennitölu sinnar. Hafi skrifstofa Alþingis farið yfir mál hans og drög verið lögð að því að birta umsögn maðurinn á ný án kennitölu hans. Því miður hefði ekki tekist að ljúka því eins og rétt hefði verið og baðst skrifstofa Alþingis velvirðingar á því í bréfi sínu. Þá segir að skrifstofan hafi farið yfir málið á ný og fellt út kennitölu mannsins.

Árás inn í hans einkalíf

Í nóvember 2016 kvartaði maðurinn yfir því, að honum þætti það vera árás inn í hans einkalíf að skjal það sem hann sendi úr einkatölvupósthólfi sínu í pósthólf Alþingis skuli vera birt opinberlega án hans samþykkis og skjalið tengt leitarvél Google. Auk þess taldi hann að reglur forsætisnefndar og leiðbeiningar um ritun umsagna væru villandi þar sem hann ætti nokkra alnafna. Þá stæði einnig að merkja skuli umsagnir „greinilega með nafni“ og taldi maðurinn það orðalag vera óljóst. Hvergi hefði komið fram að ekki væri krafist kennitölu eða annars auðkennis og taldi maðurinn að ástæða væri til þess. Þá taldi maðurinn að hugsanlega þyrfti að taka málið upp á þingfundi eða fjalla um í þingnefnd.

Persónuvernd segir í sínum úrskurði, að það verði að ætla að manninum hafi mátt vera það ljóst, þegar hann sendi umrædda umsögn, að hún yrði opinbert skjal sem almenningur hefði aðgang að, auk þess sem hann sjálfur valdi að birta þar kennitölu sína. Það liggi hins vegar fyrir að Alþingi krefjist ekki slíkrar auðkenningar.

Ennfremur segir, að í ljósi þessa, sem og að teknu tilliti til þess að kennitala mannsins hafi verið fjarlægð í ljósi athugasemda hans eftir birtingu hennar, þá telji Persónuvernd að um sé að ræða heimila vinnslu persónuupplýsinga sem samrýmist ákvæðum laga um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert