„Ó rússneska hóra“

Maðurinn hefur hlotið tvo dóma fyrir brot gegn valdstjórninni. Sviðsett …
Maðurinn hefur hlotið tvo dóma fyrir brot gegn valdstjórninni. Sviðsett mynd. mbl.is/Sverrir Vilhelmsson

Maður á fimmtugsaldri hefur verið ákærður fyrir ærumeiðandi móðgun gegn opinberum starfsmanni með því að hafa sent konu, sem starfar sem þjónustufulltrúi hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, ærumeiðandi skilaboð á Facebook. Er honum gert að sök að hafa m.a. kallað konuna rússneska hóru en samkvæmt ákærunni voru skilaboð mannsins til konunnar eftirfarandi:

„Ó rússneska hóra, í júní fer ég til Strassborgar og Ísland borgar fyrir allt. Ég næ fram réttlæti gagnvart skíthælum, það á að dæma mig en ég get ekki fengið sannleikan fram af því að þvílík hóra vinnur hjá draslinu.“

Er maðurinn sagður beina skrifunum til konunnar þar sem hún hafði þurft að hafa afskipti af manninum í starfi sínu sem þjónustufulltrúi hjá lögreglunni. Maðurinn hefur áður hlotið tvo dóma í héraði fyrir brot gegn valdstjórninni með ofbeldisfullri hegðun í garð lögreglu.

Fyrri dóminn hlaut maðurinn fyrir að hafa kýlt lögreglukonu með krepptum hnefa í höku árið 2013, er lögreglukonan var við skyldustörf, með þeim afleiðingum að hún hlaut bólgu og mar á höku. Fyrir brotið hlaut hann þriggja mánaða skilorðsbundinn fangelsisdóm auk þess sem honum bar að greiða um 200.000 krónur í sakarkostnað og málsvarnarlaun.

Seinni dóminn hlaut maðurinn árið 2016 fyrir brot gegn valdstjórninni með því að hafa slegið tvo lögreglumenn í strætóskýli, annan í hönd en hinn í höfuðið, þar sem þeir sinntu skyldustörfum. Fyrir hlaut maðurinn sex mánaða fangelsisdóm auk þess sem honum var gert að greiða tæpar 300.000 krónur í sakarkostnað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert