Óljósar merkingar á Þjóðvegi 1

Á mynd sést miðlína sem er svo afmáð af veginum …
Á mynd sést miðlína sem er svo afmáð af veginum að ekki er hægt að sjá hvort hún sé heil eða brotin. Ljósmynd/Aðsend

Athugasemdir hafa borist mbl.is um óljósar merkingar á Þjóðvegi 1, þá sérstaklega frá Hvolsvelli að Skógum. Á meðfylgjandi mynd sem lesandi sendi inn sést ástand miðlínu frá þessum slóðum. Hún er svo afmáð af vegi að ekki sést hvort hún sé heil eða brotin. Upplýsingafulltrúi Vegagerðarinnar segist þekkja ástand vegarins og sé „á fullu að mála“.

Á þjóðvegi er oft um hraðakstur að ræða og mikið er af erlendum ferðamönnum sem ekki þekkja vegakerfið. Því skiptir öllu að merkingar séu skýrar. Lesandi greindi frá útlenskum bílstjóra sem, á ofsahraða, tók fram úr honum þar sem framúrakstur var bannaður. Á veginum hefði átt að vera heil miðlína en hún hafi einfaldlega ekki sést. Það hafi verið mikil umferð í báðar áttir og því stórhættulegt fyrir ferðamanninn enda blindhorn fram undan.

G. Pétur Matthíasson, upplýsingafulltrúi Vegagerðarinnar, segir í samtali við mbl.is Vegagerðina þekkja ástand vegakerfisins en það séu einfaldlega ekki nægar fjárveitingar til að mála eins mikið og þau vildu á stuttum tíma. „Við erum að mála allt sumarið,“ segir hann. Þrátt fyrir það hafi fjárveitingar aukist í ár og því verði meira gert í sumar en að undanförnu. „Við erum á fullu í að mála. Um daginn var búið að mála 14.000 kílómetra. Ég held við séum fyrr á ferðinni í ár. Við séum búin að mála óvenjumikið.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert