Öll umferðarlög virt að vettugi

Úr safni.
Úr safni. mbl.is/júlíus

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu veitti ökumanni, sem var undir áhrifum áfengis og vímuefna, eftirför á Vesturlandsvegi við Suðurlandsveg í nótt. Ökumaðurinn sinnti ekki stöðvunarmerkjum lögreglu, ók yfir á rauðu ljósi og á 140 km hraða á kafla þar sem leyfilegur hámarkshraði er 50 km á klst.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Þar segir að tilkynnt hafi verið um atvikið kl. 00:26 í nótt. 

Fram kemur að ökumaðurinn hafi ekið af Vesturlandsvegi inn á Höfðabakka. Síðan hafi hann ekið inn Stekkjarbakka og þaðan inn í Kópavog þar sem aksturinn var stöðvaður eftir umferðaróhapp. 

Lögreglan segir að ökumaðurinn hafi hunsað öll umferðarlög. Hann hafi t.d. ekki virt umferðarmerki ekki virt, ekið á móti rauðu ljósi, ekið of hratt sem fyrr segi og þá hafi hann orðið valdur að umferðaróhappi og eignatjóni.

Að sögn lögreglu, er ökumaðurinn grunaður um akstur bifreiðar undir áhrifum áfengis og fíkniefna. Einnig fyrir að aka án réttinda og fyrir að vera með fíkniefni í fórum sínum.

Ökumaðurinn var að lokinni sýnatöku vistaður fyrir rannsókn máls í fangageymslu lögreglu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert