Fangageymslur lögreglunnar fullar

Það var nóg að gera hjá lögreglunni í gærkvöldi og …
Það var nóg að gera hjá lögreglunni í gærkvöldi og í nótt. mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafði í nógu að snúast í gærkvöldi og í nótt. Allar fangageymslur lögreglu á Hverfisgötu og í Hafnarfirði eru fullar og geyma þær átján manns.

Upp úr klukkan hálfníu í gærkvöldi var bifreið stöðvuð á Bústaðavegi. Ökumaðurinn er grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna. Þá var tölvuvert af ætluðum fíkniefnum í bifreðinni og voru ökumaður og þrír farþegar handteknir og vistaðir í fangageymslu lögreglunnar.

Lögreglan hafði afskipti af mörgum í gærkvöldi og í nótt vegna vörslu fíkniefna. Eitt mál kom upp í Safamýri um hálftíuleytið í gærkvöldi og sjö til viðbótar í Laugardalnum í gærkvöldi.

Um tíuleytið í gærkvöldi var tilkynnt um fáklædda konu í stigagangi í húsi við Hverfisgötu þar sem enginn kannaðist við hana. Hún var í mjög annarlegu ástandi, samkvæmt dagbók lögreglunnar, og aðeins klædd í skyrtubol og skó. Hún gat ekki sagt til nafns og hafði engin skilríki. Hún var vistuð í fangageymslu lögreglunnar þar til ástand hennar lagast.

Um hálfellefuleytið var tilkynnt um innbrot á heimili í Austurborginni. Ungur maður í annarlegu ástandi var handtekinn á vettvangi. Hann var vistaður í fangageymslu.

Maður í annarlegu ástandi var handtekinn í Austurstræti um hálftvöleytið í nótt eftir að hafa ráðist á fólk. Hann var vistaður í fangageymslu.

Um níuleytið í gærkvöldi var tilkynnt um ofurölvi mann í strætóskýli í Hafnarfirði. Hann gat ekki sagt til nafns og hafði engin skilríki. Hann var einnig vistaður í fangageymslu.

Laust fyrir klukkan fimm í nótt tilkynnti maður um fólk sem hafði ráðist á hann við Hellisgerði og rænt farsíma hans.

Um hálftólfleytið í gærkvöldi var tilkynnt um innbrot í bílaleigu á Höfðanum. Rúða hafði verið brotin og farið þangað inn. Stolið var bíllyklum. Þjófurinn skarst á höndum við innbrotið og var töluvert blóð á vettvangi. Hann var handtekinn í öðru máli í Breiðholti skömmu síðar þar sem hann var með bíllyklana á sér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert