„Lokkuð inn á flugvöll og lokuð þar inni“

Mikil óánægja er meðal farþega vélarinnar, sem segja flugfélagið hafa …
Mikil óánægja er meðal farþega vélarinnar, sem segja flugfélagið hafa veitt rangar og ófullnægjandi upplýsingar. mbl.is/Árni Sæberg

„Manni ofbýður þessi framkoma,“ segir Guðlaug Gísladóttir, einn farþega Icelandair sem þurfti að bíða í alla nótt á flugvellinum í Ósló eftir að flugi flugfélagsins var seinkað um níu klukkustundir. Mikil óánægja er meðal farþega vélarinnar, sem segja flugfélagið hafa veitt rangar og ófullnægjandi upplýsingar.

Vélin átti að fara í loftið frá Ósló klukkan 21:55 á norskum tíma, en um klukkan 19 fengu farþegar tilkynningu um að fluginu yrði seinkað til klukkan 4 um nóttina. Farþegum var þó sagt að koma ekki síðar en klukkan 23:00 á flugvöllinn í Ósló þar sem öryggisleitin á vellinum myndi loka klukkan 23:30. Síðar kom önnur tilkynning um að fluginu væri seinkað til 05:05, en að lokum fór vélin ekki í loftið fyrr en klukkan 06:50.

Fengu matarmiða í sárábætur

Guðlaug segir að fólk hafi verið svikið, þar sem flugvöllurinn sé opinn allan sólarhringinn og þær upplýsingar frá Icelandair um að öryggisleitin myndi loka hefðu hreinlega ekki verið réttar. „Við höfðum ekkert val um hvað við gerðum heldur vorum lokkuð inn á flugvöllinn og lokuð þar inni,“ segir hún og bætir við að fólki hafi ekki verið gefinn kostur á að vera á hóteli og sofa á meðan þeir biðu eftir fluginu. Engar útskýringar hafi borist, en farþegum hafi verið gefnir matarmiðar í sárabætur. „En það höfðu fáir lyst á því að borða klukkan tvö um nótt svo það bætti lítið upp,“ segir Guðlaug.

Þá segist hún skilja að ýmislegt geti komið upp á þegar flug er annars vegar, en segir gott upplýsingaflæði vera nauðsynlegt. „Í stað þess að vera heiðarlegur og gefa fólki tækifæri á því að fara þá á hótel eða gera það sem það vill, þá leit þetta út fyrir að þeir hafi vitað það allan tímann að við færum ekki fyrr en undir morgunn. Fólki leið eins og því væri smalað á völlinn á fölskum forsendum.“

„Það sáu allir í gegnum þetta“

Að sögn Guðlaugar var mjög erfitt fyrir stóran hluta farþeganna að sitja og bíða tímunum saman á flugvellinum, en þar hafi hvergi verið hægt að leggja sig. Í hópnum hafi til dæmis verið eldra fólk, fatlað fólk og fólk með börn. „Svo var líka kona í hópnum sem var nýkomin úr aðgerð og átti erfitt með setu og maður í hjólastól. Það voru allir orðnir ofboðslega þreyttir,“ segir hún. „Þetta er skammarlegt í rauninni.“

Guðlaug segir seinkunina hafa miklar afleiðingar fyrir farþega, en hún starfar sjálf á Landspítalanum þar sem hún átti að vera á vakt í dag. „Ég mæti ekki ósofin að vinna með sjúklinga svo ég þarf að sleppa því að mæta í vinnu sem er líka tekjutap fyrir mig,“ segir hún og bætir við að margir hafi verið í svipaðri stöðu. Þá hafi nokkrir sem hún talaði við átt tengiflug frá Íslandi sem það hafi misst af vegna seinkunarinnar.

„Það hefði mátt koma í veg fyrir þetta með heiðarleika og góðu upplýsingaflæði. Við skynjuðum að þetta væri ekki alveg heiðarlegt. Það sáu allir í gegnum þetta,“ segir hún.

Ekki náðist í Guðjón Arngrímsson, upplýsingafulltrúa Icelandair, við vinnslu fréttarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert