Segja Ísland sterkt í þróunarsamvinnu

Fundurinn var haldinn í Safnahúsinu sem áður nefndist Þjóðmenningarhúsið.
Fundurinn var haldinn í Safnahúsinu sem áður nefndist Þjóðmenningarhúsið. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Ísland er á margan hátt framarlega í alþjóðlegri þróunarsamvinnu, sérstaklega þegar kemur að jafnréttismálum og samstarfi við jarðorkufyrirtæki, en auka mætti framlög sem hlutfall af landsframleiðslu til þróunarsamvinnu. Þetta kemur fram jafningjarýni um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands. 

Niðurstöður skýrslunnar voru kynntar í Safnahúsinu á Hverfisgötu í dag. Um er að ræða rýni sem unnin hefur verið síðustu misserin á vegum Þróunarsamvinnunefndar OECD, DAC-nefndarinnar. Þar héldu erindi Charlotte Petri Gornitzka, formaður DAC nefndarinnar, og Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra. 

„Við viljum frá sjónarhorn þeirra sem þekkja best til og ég held að auðvelt sé að fullyrða að þetta séu góðar niðurstöður fyrir okkur. Það breytir því samt ekki að það er mikið af góðum ábendingum og við tökum þeim öllum alvarlega,“ segir Guðlaugur Þór.

Nefnt er í skýrslunni að einn helsti styrkleiki Íslands sé miðlun þekkingar um jarðorku í verkefnum í Austur-Afríku þar sem stefnt er að því að bæta við 200 megavöttum á næstu sjö til fimmtán árum. Verkefnin séu unnin í vel heppnuðu samstarfi við einkaaðila og segir í skýrslunni að færa megi þessi nálgun á önnur svið. 

Guðlaugur Þór utanríkisráðherra hélt stutta tölu á fundinum og stóð …
Guðlaugur Þór utanríkisráðherra hélt stutta tölu á fundinum og stóð síðan fyrir svörum. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Þá er ekki síður talið til kosta að hlutfall þróunaraðstoðar Íslands sem tekur mið af jafnrétti kynjanna sé langt yfir meðtali OECD-ríkjanna, eða 80% í samanburði við 35%. 

„Þetta er eitt af því sem nær þvert yfir alla okkar aðstoð, við leggjum mikla áherslu á jafnréttismálin. Það er málaflokkur sem við erum framarlega í og við kvikum ekki neitt frá þeirri stefnu,“ segir Guðlaugur Þór. 

Hagvöxtur hylur aukninguna

Í skýrslunni er bent á sumt sem betur mætti fara. Áhersla er lögð á að Ísland hafi burði til að auka framlög sem hlutfall af landsframleiðslu til þróunaraðstoðar, sérstaklega í ljósi hagvaxtar síðustu ára, en eins og mál standa er Ísland ekki á leið með að ná markmiði OECD-landanna sem nemur 0,7% af landsframleiðslu.

Guðlaugur Þór segir að stefnt sé að því að framlögin nemi um 0,6% á árunum 2018-2021 og að óvenjuhár hagvöxtur hylji krónutöluaukninguna sem hefur orðið á síðustu árum. 

„Við höfum verið að auka þetta mikið í krónum talið, á örfáum árum hafa framlögin farið úr þremur milljörðum í sjö milljarða. Öll utanríkisþjónustan er í kringum tólf eða þrettán milljarðar þannig að þróunaraðstoðin er í kringum 40% af utanríkisþjónustunni og verður samkvæmt áætlunum 45%,“ segir Guðlaugur Þór. „Þó að við bætum í þá þurfum við að gera það verulega til að halda í sama hlutfall.“

Hann bætir við að þegar komi að ríkisfjármálum sé auðvelt að ná samstöðu um að bæta í en erfiðara að ná samstöðu um hvaðan eigi að taka. 

Charlotte Petri Gornitzka fjallaði í stuttu máli um yfirgripsmiklu skýrsluna.
Charlotte Petri Gornitzka fjallaði í stuttu máli um yfirgripsmiklu skýrsluna. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Í sambandi við Grænlendinga

Greint var frá því á mbl.is í gær að íslensk stjórn­völd hefðu boðið Græn­lend­ing­um aðstoð vegna jarðskjálft­ans og flóðbylgj­unn­ar sem skall á byggðinni Nu­uga­atsiaq í Uummann­aq-firðinum í nótt. Spurður um stöðu mála segir Guðlaugur að á næstu dögum komi í ljós með hvaða hætti aðstoðin verði. 

„Embættismenn okkar eru í sambandi við þeirra fólk. Það kemur í ljós á næstu dögum hvernig málið mun þróast.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert