Veittist að afgreiðslumanninum

Nóg var að gera hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í nótt.
Nóg var að gera hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í nótt. mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu þurfti að sinna nokkrum útköllum af misstórri gráðu í nótt. Í morgun var tilkynnt um líkamsárás í verslun í miðborginni en þar hafði karlmaður sem staddur var í verslun veist að starfsmanni verslunarinnar. Karlmaðurinn var farinn af vettvangi þegar lögreglu bar að og fannst hann ekki þrátt fyrir leit.

Lögregla þurfti tvisvar í nótt að biðja húsráðendur um að lækka tónlist í samkvæmi eftir kvartanir frá nágrönnum.

Tilkynnt var um einstakling sofandi í strætóskýli í hverfi 108. Þegar lögreglu bar að var viðkomandi farinn og telur lögregla að hann hafi sennilega vaknað og haldið sína leið. Síðar bar tilkynning um karlmann að stela reiðhjóli í hverfi 104. Fannst hann ekki þrátt fyrir leit.

Þá fór þjófavarnarkefi í gangi í íbúð í hverfi 105. Samband var haft við eiganda íbúðarinnar, sem var erlendis, og ætlaði hann að gera ráðstafanir til þess að láta líta á íbúðina. Einnig var tilkynnt um innbrot inn í húsnæði í hverfi 101.

Um tíuleytið í morgun hófu lögreglumenn eftirför á eftir fólksbíl sem sinnti ekki stöðvunarmerkjum lögreglu í Ártúnsbrekku og endaði eftirförin nokkru síðar í umdæmi lögreglunnar á Suðurlandi.

Í Hafnarfirði var tilkynnt um nokkra einstaklingar í annarlegu ástandi inni í verslunarmiðstöð og var þeim vísað út af lögreglu.

Tíðindalaust var í Grafavogi, Grafarholti, Árbæ og Mosfellsbæ. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert