Af hverju uppreist æru?

Hæstiréttur Íslands.
Hæstiréttur Íslands. mbl.is/Þórður

Samkvæmt lögum um uppreist æru eru einu skilyrðin fyrir henni að menn hafi „hagað sér vel“ á refsitímanum og að fimm ár séu liðin frá því að þeir sem sækja um uppreist æru hafi lokið afplánun.

Hugsunin að baki þessu er sú að þeir sem sýnt hafa góða hegðun að lokinni afplánun eigi rétt á að hafa óflekkað mannorð, í lagalegum skilningi.

Talsvert hefur verið rætt og ritað um uppreist æru eftir að lögmaðurinn Robert Downey fékk uppreista æru en Hæstiréttur staðfesti dóm héraðsdóms þess efnis í síðustu viku. Downey, sem er rúmlega 70 ára gamall, var dæmdur í 3 ára fang­elsi fyr­ir kyn­ferðis­brot gegn fjór­um stúlk­um. Brot­in voru fram­in á ár­un­um 2005 og 2006.

Þingmenn verða að hafa óflekkað mannorð

Ýmsar starfstéttir verða að hafa óflekkað mannorð, til að mynda þeir sem sækjast eftir kjörgengi til Alþingis. „Enginn telst hafa óflekkað mannorð sem er sekur eftir dómi um verk sem er svívirðilegt að almenningsáliti nema hann hafi fengið uppreist æru sinnar,“ segir í lögum um kosningar til Alþingis.

Eins og áður hefur komð fram er gerð krafa um að lögmenn hafi óflekkað mannorð og er það meðal þeirra skilyrða sem þarf til að fá héraðsdómslögmannsréttindi. Meginreglan um uppreist æru kemur fram í annarri og þriðju málsgrein 85. grein hegningarlaganna.

Forseti getur og veitt manni uppreist æru, þegar að minnsta kosti 5 ár eru liðin frá því að refsing hans er að fullu úttekin, fyrnd eða gefin upp, enda færi umsækjandi sönnur, sem gildar séu metnar, á það, að hegðun hans hafi verið góð umræddan tíma,“ segir þar.

Hafi lög­menn verið svipt­ir lög­manns­rétt­ind­um þurfa þeir meðmæli Lög­manna­fé­lag­ins og að stand­ast prófraun til að eiga mögu­leika á því að öðlast rétt­ind­in á ný. Reimar Pétursson, formaður Lögmannafélagsins, vildi ekki tjá sig um málið þegar mbl.is leitaðist eftir því.

Í 16. grein í lög­um um lög­menn seg­ir að hafi ráðherra lýst rétt­indi lög­manns óvirk, þau hafi fallið niður eða verið felld niður sam­kvæmt ein­hverju því sem í 12. – 15 gr. lag­anna seg­ir skuli þau lýst virk að nýju eða veitt hon­um að nýju eft­ir um­sókn hans án end­ur­gjalds eða prófraun­ar, enda full­nægi hann öll­um öðrum skil­yrðum til að njóta þeirra.

Eins og Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, benti á fyrir helgi, að þótt talað sé um að forseti veiti uppreist æru fer dómsmálaráðuneytið í raun með slík mál. Er það í samræmi við almennar reglur um að forseti láti ráðherra framkvæma vald sitt.

Engar upplýsingar um meðmælendur Roberts

Sig­ríður Á. And­er­sen dóms­málaráðherra sagði fyrir helgi að það væri ekki sjálf­gefið að menn fái upp­reist æru jafn­vel þótt þeir upp­fylli til­tek­in laga­leg skil­yrði. Bjarni Bene­dikts­son for­sæt­is­ráðherra var starf­andi dóms­málaráðherra þegar Dow­ney óskaði eft­ir upp­reist æru en Bjarni seg­ist ekki hafa átt aðkomu að mál­inu.

Að sögn Sig­ríðar sótti Robert Dow­ney sjálf­ur um að fá upp­reist æru hjá dóms­málaráðuneyt­inu, eins og lög kveða á um. Þar þarf meðal ann­ars að skila nægi­lega mörg­um meðmæl­end­um og upp­fylla ákveðinn tíma­frest. Hún seg­ir að ráðuneytið fái alla jafna stöðugan straum af slík­um um­sókn­um. Upp­fylli menn skil­yrðin hafi það verið þannig í „marga ára­tugi“ að menn fái upp­reist æru.

Engar upplýsingar hafa borist um hverjir meðmælendur Roberts voru.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert