Leituðu að Rim­antas fram á nótt

Rim­antas Rimkus.
Rim­antas Rimkus. Ljós­mynd/​Lög­regl­an á höfuðborg­ar­svæðinu

Leit að Rim­antas Rimkus, 38 ára gömlum karlmanni sem lögreglan á höfuðborgarsvæðinu lýsti eftir í gær, stóð yfir til klukkan rúmlega eitt í nótt. Hátt í hundrað björgunarsveitarmenn tóku þátt í leitinni, en leitað var í nágrenni við bíl mannsins, sem fannst mannlaus við Stekkjarbakka. 

Ekki hefur verið tekin ákvörðun um áframhaldandi leit.

Frétt mbl.is: Lögreglan lýsir eftir karlmanni

Lögreglan lýsti eftir manninum í gær, eftir að vinir hans leituðu á lögreglustöð. Þeir höfðu ekki heyrt í honum í nokkrar vikur, en ekkert hefur spurst til hans frá því um síðustu mánaðamót. Leitað var í gærkvöldi og nótt í nágrenni við bílinn, við Elliðaárnar og niður að sjó. 

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu er ekki talið að eitthvað saknæmt hafi átt sér stað. Verið er að afla gagna og má svo búast við því að tekin verði ákvörðun síðar í dag um hvort áframhaldandi leit muni fara fram í dag. Rannsóknin felst nú í því að ræða við ættingja og vini mannsins og reyna að staðsetja hann. 

Rim­antas er 187 sm á hæð, 74 kg og með dökkt, stutt hár. Þeir sem geta veitt upp­lýs­ing­ar um ferðir Rim­antas eru beðnir um að hafa sam­band við lög­reglu í síma 112. Upp­lýs­ing­um má einnig koma á fram­færi í einka­skila­boðum á Fés­bók­arsíðu lög­regl­unn­ar á höfuðborg­ar­svæðinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert