Baldur Arnarson
Verð á pakkaferðum á Íslandi hefur hækkað um tæp 42% í pundum milli ára og um 28% í evrum. Verð á veitingahúsum hefur hækkað svipað.
Þetta kemur fram í útreikningum Rannsóknaseturs verslunarinnar (RSV) fyrir Morgunblaðið.
Árni Sverrir Hafsteinsson, hagfræðingur hjá RSV, segir verðbreytingarnar svo miklar að þær hljóti að hafa áhrif á neyslu ferðamanna.
Til dæmis kunni tekjulægra fólk að hætta við ferð til Íslands.
Annað dæmi um verðbreytingar er að leigubíll kostar nú 40% meira í jenum en fyrir ári og gisting kostar 26% meira í Bandaríkjadölum.
Samkvæmt tölum RSV hefur sala til erlendra ferðamanna aukist mun meira í matvöru en á veitingahúsum. Finnur Árnason, forstjóri Haga, og Jón Björnsson, forstjóri Krónunnar, segja sölu til ferðamanna óverulega.
Þeir sögðu hins vegar tækifæri í sölu matvöru til ferðamanna í gegnum væntanlega samstarfsaðila, sem eru N1 í tilviki Krónunnar og Olís í tilviki Haga. Sölunetið sé víðfeðmt.