Keypti ástarlag fyrir eiginmanninn eftir 20 ára bið

Hljómsveitina Evu skipa þær Sigríður Eir Zophoniasardóttir og Jóhanna Vala …
Hljómsveitina Evu skipa þær Sigríður Eir Zophoniasardóttir og Jóhanna Vala Höskuldsdóttir. Hljómsveitina Evu skrifa og flytja ástarsöng til Vignis. Ljósmynd/Vala Höskuldsdóttir

Verkfræðingurinn Þorbjörg Sæmundsdóttir hafði beðið í 20 ár eftir ástarlagi frá eiginmanni sínum, tónlistarmanninum Vigni Snæ Vigfússyni. Hún tók loks ákvörðun um að vera fyrri til og þar sem hún er ekki tónlistarmaður sjálf fékk hún hljómsveitina Evu til að semja og flytja ástarsöng til Vignis. Lagið heitir Vignis-lagið. 

Hjónin hafa verið gift í nær tuttugu ár og á þeim tíma hefur Vignir ítrekað sagt að ástarlagið til Þorbjargar sé á næsta leyti. „Þetta er náttúrúlega búinn að vera brandari í næstum því 20 ár að ég sé alltaf að bíða eftir þessu lagi frá honum,“ segir Þorbjörg. Fyrir vikið datt Þorbjörgu í hug að gera lag fyrir Vigni.

Hljómsveitina Evu skipa þær Jóhanna Vala Höskuldsdóttir og Sigríður Eir Zophoniasardóttir. Á þessum tíma unnu þær að plötunni „Nóg til frammi“ sem nú er komin út. Til að fjármagna hana notuðu þær hópfjármögnunarsíðuna Karolina Fund. Þar var hægt, fyrir 100 evrur eða um 12.000 krónur, að fá þær stöllur til að semja lag um viðfangsefni af eigin vali með tileinkun.

Útvistaði verkefninu

Þorbjörg skrifaði master-ritgerð sína um útvistun, sem snýst um að útvista hlutum sem maður er sjálfur ekki góður í til annarra sem eru betri í því og fá þá frekar til að gera hlutina fyrir sig. Hún greip því gæsina á meðan hún gafst og keypti lag af hljómsveitinni. „Mér fannst mjög viðeigandi að útvista þessu til annarra sem eru betri, til að semja lag til hans.“

Hljómsveitin þekkir hjónin þar sem Sigríður er mágkona Þorbjargar og hljómsveitin tekur upp og hefur unnið með Vigni. Þær áttu því ekki í vanda með að skrifa Vigni ástarlag án aðstoðar Þorbjargar. „Ég lét þær bara fá smá punkta,“ segir Þorbjörg.

Vignir tók afar vel í lagið. „Honum fannst þetta mjög skemmtilegt og fyndið. Hann vissi um leið og þær byrjuðu út á hvað brandarinn gekk. Þetta er líka mjög skemmtilegt og flott lag,“ segir Þorbjörg.

Hér má sjá myndband af frumflutningi Vignis-lagsins:

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert