Skógafoss á rauðan lista

Svæðið lætur mikið á sjá vegna gríðarlegrar fjölgunar ferðamanna.
Svæðið lætur mikið á sjá vegna gríðarlegrar fjölgunar ferðamanna. mbl.is/Ómar Óskarsson

Náttúruvættið Skógafoss hefur verið fært á rauðan lista Umhverfisstofnunar yfir svæði í hættu. Stofnunin gefur árlega út skýrslu um ástand friðlýstra svæða á Íslandi en á tveggja ára fresti er gefinn út svokallaður rauður listi sem byggður er á ástandsskýrslunni.

Færist Skógafoss nú af appelsínugulum lista á rauðan lista. Að því er fram kemur í fréttatilkynningu frá Umhverfisstofnun lætur svæðið mikið á sjá vegna gríðarlegrar aukningar á ferðamönnum sem heimsækja svæðið allt árið um kring. Lítil landvarsla sé á svæðinu og auk þess sé stýringu ferðamanna um svæðið ábótavant.

Dettifoss á appelsínugulan lista

Eitt af markmiðum rauða listans er að forgangsraða kröftum og fjármunum til verndunar, að auka meðvitund um ákveðna hættu og efla samstarf meðal umsjónaraðila, hagsmunaaðila og stofnana sem koma að fjármögnun, skipulagningu, vöktun og stjórnun svæða.

Friðlandið Fjallabak, Helgustaðanáma, Verndarsvæði Mývatns og Laxár, Geysir og Reykjanesfólkvangur verða áfram á rauða listanum að sinni. Þær aðgerðir sem hafa verið gerðar á svæðunum að undanförnu hafa verið mikilvægar en duga ekki til að þau fari af rauða listanum að því er fram kemur í tilkynningunni. Landvörslu þurfi að bæta umtalsvert á öllum þessum svæðum til að auka vernd þeirra.

Eitt nýtt svæði kemur inn á appelsínugulan lista, Dettifoss, vegna aukins ágangs ferðamanna og lengingar ferðamannatímabilsins.

Fjögur svæði fara af listanum

Fjögur svæði fara hins vegar alveg af listanum. Þau eru Eldborg í Bláfjöllum, Fossvogsbakkar og Háubakkar vegna þess að þar hafa aðgerðir Umhverfisstofnunar og Reykjavíkurborgar í stýringu, upprætingu framandi tegunda og fræðslu bætt stöðu mála umtalsvert samkvæmt skýrslunni.

Nokkur svæði eins og Surtarbrandsgil og Dynjandi eru á batavegi en ekki farin af listanum, þar sem flestar framkvæmdir sem áætlaðar voru eru á lokametrunum en ekki búnar. Eftirlit með svæðinu hefur verið aukið, gestastofa Surtarbrandsgils hefur verið opnuð á Brjánslæk og vinna við stjórnunar- og verndaráætlun er á lokametrunum.

Loks segir í tilkynningunni að friðlýst svæði á Íslandi hafi verið 114 talsins í maí 2017. Mikilvægt sé að innviðir svæðanna séu til þess búnir að taka á móti þeim fjölda sem þar staldrar við og að fræðsla innan svæðanna sé markviss og til þess fallin að stuðla að aukinni verndun íslenskrar náttúru. Stofnunin minnir á mikilvægi þess að bæta heilsársumsjón með friðlýstum svæðum í öllum landshlutum en sérstaklega á Austurlandi og Suðvesturlandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert