Háskóli Íslands færist ofar á lista þeirra bestu

Háskóli Íslands færist ofar á lista þeirra bestu í Evrópu.
Háskóli Íslands færist ofar á lista þeirra bestu í Evrópu. mbl.is/Ómar Óskarsson

Háskóli Íslands situr nú í sæti 120-130 á nýjum lista Times Higher Education, en sat áður í sæti 131-140. Skólinn situr svo í sæti 201-250 á heimslistanum.

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, segir þetta merki um það að skólinn sé í markvissri sókn. „Það skiptir miklu máli fyrir okkur Íslendinga að eiga háskóla sem er ítrekað svo framarlega á evrópska og alþjóðlega listanum. Styrkur okkar hefur vakið feiknarathygli á alþjóðavettvangi og skólanum opnast nú fjölmörg tækifæri til rannsóknasamstarfs við aðra háskóla í allra fremstu röð,“ segir Jón Atli í frétt Háskóla Íslands um málið.

Hvetur stjórnvöld til að auka fjárframlög

Rektor hefur þó áhyggjur af framhaldinu og segir fjármálaáætlunina sem samþykkt var á Alþingi á dögunum hafa valdið vonbrigðum. Hvetur hann stjórnvöld til að auka fjárframlög til skólans og bendir á að glæný skýrsla frá Evrópusambandinu staðfesti ótvíræð tengsl á milli framlaga til rannsókna, nýsköpunar og menntunar og framleiðniaukningar og hagvaxtar.

Samkvæmt tilkynningu Háskóla Íslands er þetta í annað sinn sem sérstakur listi yfir 200 bestu Háskóla í Evrópu er gefinn út, en tveir enskir háskólar verma toppsætin. Oxford-háskóli þykir sá besti í Evrópu og fylgir Cambride-háskóli þar á eftir.

Times Higher Education gerir ítarlegt mat á frammistöðu háskóla við vinnslu á listum sínum og meðal annars er horft til rannsóknarstarfs, áhrifa rannsókna á alþjóðlegum vettvangi, gæða kennslu, námsumhverfis og alþjóðlegra tengsla.

Listinn yfir bestu háskóla í Evrópu í heild sinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert