Vatnið flæðir yfir brúna

Verkstæði sem stendur nærri slapp við skemmdir þegar hlaup varð …
Verkstæði sem stendur nærri slapp við skemmdir þegar hlaup varð í Hlíðarendaá á Eskifirði. Ljósmynd/Visit Eskifjörður

„Við höfum náð tökum á ánni og hún rennur nú yfir brúna,“ segir Sigurður Jóhannes Jónsson, forstöðumaður framkvæmda- og þjónustumiðstöðvar Fjarðabyggðar, í samtali við mbl.is. Hlaup kom í Hlíðarendaá á Eskifirði síðdegis í dag en skriða sem féll gerði það að verkum að árfarvegur undir brú sem yfir hana liggur stíflaðist.

Brúin heldur enn þá og mun gera áfram að sögn Sigurðar en dregið hefur talsvert úr vatnsmagni frá því sem var fyrr í kvöld. Mikil úrkoma hefur verið á svæðinu. „Brúin heldur enn þá og hún fer ekkert,“ segir Sigurður.

Þá hafa að sögn Sigurðar ekki orðið neinar skemmdir á mannvirkjum eða nokkru slíku en varnargarðar komu í veg fyrir að verkstæði og önnur mannvirki sem standa nærri yrðu fyrir skemmdum. Vatnið náði langleiðina upp að húsnæði verkstæðisins. „Farvegurinn átti að flytja vatnið en það var skriða sem kom niður og lokaði brúnni,“ segir Sigurður að lokum.

Austurfrétt greinir frá því að áætlað sé að um 2.000 rúmmetrum af möl hafi verið mokað upp úr ánni. Úrkoma á Eskifirði, Fáskrúðsfirði, Norðfirði og Seyðisfirði hefur verið mikil frá því á miðnætti og er komin upp í 100 mm síðan þá að því er Austurfrétt greinir frá.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert