Hækka laun embættismanna afturvirkt

Sveinn Arason ríkisendurskoðandi.
Sveinn Arason ríkisendurskoðandi. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Kjararáð hefur úrskurðað að laun sjö embættismanna og allra sendiherra skulu hækkuð og að launahækkunin skuli leiðrétt afturvirkt. Helgi Ingólfur Jónsson, varaforseti Hæstaréttar, er á meðal þeirra sem fær hækkun en laun hans hækka í tæpar 1,9 milljónir króna. Eru þau leiðrétt 18 mánuði aftur í tímann, eða frá 1. janúar á síðasta ári. 

Þá fær Örnólfur Thorsson forsetaritari hækkun, en mánaðarlaun hans hækka í rúmar 1,3 milljónir króna. Eru þau einnig leiðrétt afturvirkt, frá og með 1. október 2016. Í upphæðunum hefur verið tekið tillit til fastákveðinnar yfirvinnu.

Kjararáð ákvarðaði kjörin fyrr í vikunni en úrskurðirnir voru birtir í gær.

Ólöf Ýrr Atladóttir ferðamálastjóri.
Ólöf Ýrr Atladóttir ferðamálastjóri.

Þor­gerður Þrá­ins­dótt­ir, fram­kvæmda­stjóri Frí­hafn­ar­inn­ar fær leiðrétt laun 18 mánuði aftur í tímann, en þau hækka upp í 1,2 milljónir króna. Þá hækka laun Unnar Gunnarsdóttur, forstjóra Fjármálaeftirlitsins, upp í 1,8 milljónir og verða þau einnig leiðrétt 18 mánuði aftur í tímann.

Laun Ólafs Hjálmarssonar hagstofustjóra hækka afturvirkt um 8 mánuði og verða nú tæpar 1,5 milljónir á mánuði. Þá hækka laun Sveins Arasonar ríkisendurskoðanda upp í 1,7 milljónir króna, og gildir hækkunin afturvirkt um eitt ár. 

Laun Ólafar Ýrrar Atladóttur ferðamálstjóra verða einnig leiðrétt afturvirkt um eitt ár, en laun hennar hækka nú í 1,2 milljónir. 

Laun sendiherra hækka einnig, en mismikið eftir mannaforráði þeirra. Þannig hækka laun sendiherra við störf í utanríkisráðuneytinu sem hafa mannaforráð upp í 1,3 milljónir króna, en þeirra sem ekki hafa mannaforráð upp í 1,1 milljón króna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert