Umdeild breyting á Íslandsmóti

Golf þykir bæði dýr og tímafrek íþrótt. Einn golfhringur getur …
Golf þykir bæði dýr og tímafrek íþrótt. Einn golfhringur getur tekið meira en fjórar klukkustundir og golfvellir geta verið allt að 600.000 fermetrar að stærð. Með því að bjóða upp möguleikann á 13 holu mótum gefst kylfingum svigrúm til að spila styttri golfhringi. mbl.is/Brynjar Gauti

Töluverð breyting hefur verið gerð á fyrirkomulagi KPMG-bikarsins eða Íslandsmótsins í holukeppni sem fer fram í Vestmannaeyjum um helgina. Í staðinn fyrir að keppt verði á 18 holu velli eins og vaninn er hefur Golfsamband Íslands (GSÍ) ákveðið að í ár verði holurnar aðeins 13 talsins.

„Þetta verður í fyrsta sinn, svo vitað sé, sem landskeppni rótgróinnar golfþjóðar fer fram á velli með færri en 18 holur,“ segir í tilkynningu GSÍ.

„Ástæðuna [fyrir breytingunni] má rekja til umræðu innan golfsambandsins um sveigjanlegri möguleika fyrir kylfinga og golfvallareigendur,“ segir Haukur Örn Birgisson, forseti GSÍ, í samtali við blaðamann Sunnudagsblaðsins. „Í vor var reglugerð breytt sem afnam kröfu til að mót á vegum GSÍ yrðu að fara fram á 18 holu velli.“

Með Íslandsmótinu í holukeppni veittist tækifæri til að setja þessa reglugerð í framkvæmd. „Nokkrar brautir í Vestmannaeyjum komu illa út úr vetrinum svo við urðum að bregðast við aðstæðum,“ segir Haukur Örn.

Íslandsmótið í holukeppni hófst í Vestmannaeyjum í gær.
Íslandsmótið í holukeppni hófst í Vestmannaeyjum í gær. Ljósmynd/GSÍ

Vilja stytta leiktíma og lækka kostnað

Golf þykir bæði dýr og tímafrek íþrótt. Einn golfhringur getur tekið meira en fjórar klukkustundir og golfvellir geta verið allt að 600.000 fermetrar að stærð. Með því að bjóða upp möguleikann á 13 holu mótum gefst kylfingum svigrúm til að spila styttri golfhringi ásamt því að minna land þyrfti til að halda úti keppnisgolfvelli, svo kostnaður við viðhald valla, og að sama skapi spilagjald, gæti lækkað.

Vanvirðing gagnvart keppnisfólki

„Mér finnst þetta vera mesta vanvirðing sem keppnisfólki hefur verið sýnd í golfsögunni,“ segir Margeir Vilhjálmsson, stjórnarmaður í Golfklúbbi Reykjavíkur, í samtali við blaðamann. „Það að stíga fram og byrja þetta á Íslandsmóti er bara fáránlegt, ég á ekkert annað orð yfir þetta. Mér finnst sorglegast að fólk hafi ekki haft kjark til að skipta um skoðun,“ segir Margeir, sem birti harðorðan pistil um málið á síðunni kylfingur.is.

„Það er ekki rétt að þetta verði mikil umbylting,“ segir Haukur Örn. „Það verður ekki hægt að gera þetta á öðrum mótum á Eimskipsmótaröðinni þar sem keppt er í höggleik. Holukeppni er það eina sem dugar.“

Golfvöllurinn í Vestmannaeyjum er af mörgum talinn einn fallegasti golfvöllur …
Golfvöllurinn í Vestmannaeyjum er af mörgum talinn einn fallegasti golfvöllur landsins. Ljósmynd/GSÍ

Allir spila við sömu aðstæður

„Það munu allir spila við sömu aðstæður og ef fólk fer að pirra sig á þessari breytingu á það ekkert eftir að ganga upp hjá þeim,“ segir Gísli Sveinbergsson, núverandi Íslandsmeistari í holukeppni, en Gísli er ekki meðal keppenda vegna þátttöku sinnar í Opna breska áhugamannamótinu í golfi.

Raghildur Kristinsdóttir, stigameistari kvenna árið 2016, tekur í svipaðan streng. „Breytingar geta verið góðar og slæmar, við þurfum bara að einbeita okkur að mótinu og vona að allt gangi vel.“ Ragnhildur er á meðal keppenda um helgina en aðeins 32 stigahæstu kylfingarnir í karlaflokki og 24 stigahæstu kylfingarnir í kvennaflokki fá þáttökurétt á mótinu.

Úrslit Íslandsmótsins í holukeppni fara fram sunnudaginn 25. júní.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert