„Vegleg“ aurskriða féll á Seyðisfirði

Á Seyðisfirði rigndi mikið í gærkvöldi og nótt.
Á Seyðisfirði rigndi mikið í gærkvöldi og nótt. Ljósmynd/Hulda Ragnheiður

Aurskriða féll í nótt er Þófalækur á Seyðisfirði hljóp nærri tveimur húsum. Hún tók í sundur veginn út með firði og er hann ófær. Veginum var lokað í gær vegna hættu á skriðuföllum. Annað húsið er íbúðarhús en hitt er geymsluhúsnæði. Engin slys urðu á fólki en húsin höfðu verið rýmd um miðjan dag í gær vegna mikillar úrkomu.

Nokkur viðbúnaður hefur verið á Austurlandi frá því í gær vegna úrkomunnar en sér í lagi á Eskifirði og Seyðisfirði. Þar hefur þurft að rýma hús, rjúfa vegi og moka úr ám til að létta álagi á mannvirki og forða tjóni.

„Skriðan fór aðeins á bragga sem tilheyrir bræðslunni,“ segir Kristján Kristjánsson, bæjarverkstjóri á Seyðisfirði, í samtali við mbl.is í morgun. „Þetta er nokkuð vegleg skriða.“

Unnið er nú að því að meta skemmdir og kanna hvort frekari skriðuföll hafi orðið við bæinn. Engin íbúðarhús eru í grennd við þann stað þar sem skriðan féll.

Enn rignir mikið á Seyðisfirði en þó ekkert í líkingu við það sem var í gærkvöldi og nótt að sögn Kristjáns. Hann veit ekki til þess að frekari skemmdir hafi orðið á húsum í bænum í nótt. Í gærkvöldi voru þrjú hús rýmd í varúðarskyni. Átta íbúar fundu sér því annan næturstað. Þá kom fram í frétt mbl.is í gærkvöldi að einhverjar skemmdir hafi orðið á húsum.

Gríðarlegir vatnavextir urðu í lækjum og ám á Eskifirði í …
Gríðarlegir vatnavextir urðu í lækjum og ám á Eskifirði í gær. Ljósmynd/Fannar Hafsteinsson

Miklir snillingar björguðu málunum

Á Eskifirði flæddu ár og lækir yfir bakka sína í gær. Unnið var að því fram á nótt að koma í veg fyrir að brúin yfir Hlíðarendaá yrði vatnsflaumnum að bráð. „Það tókst að bjarga brúnni enda miklir snillingar sem komu til aðstoðar,“ segir Jónas Wilhelmsson yfirlögregluþjónn í samtali við mbl.is. Þar á Jónas við starfsmenn Malarvinnslunnar og Suðurverks sem eru á svæðinu vegna vinnu við Norðfjarðargöng. „Þeir komu með stórvirkar vinnuvélar, gröfur og vörubíla, og björguðu því sem bjargað varð.“

Efni var flutt frá brúnni til að auðvelda för vatnsins undir hana. Efnið var svo flutt á vinnusvæði verktakanna við göngin. „Það var heppilegt að þeir voru hér á staðnum með þessar vélar og höfðu viljann, færnina og þekkinguna til að græja þetta. Þeir eru magnaðir þessir drengir.“

Enginn slasaðist

Jónas segir að vegurinn sé illa farinn eftir vatnavextina í ánni. Enn eigi svo eftir að koma í ljós hverjar skemmdir eru í húsum í nágrenninu en vatn flæddi inn í nokkur þeirra, m.a. við Strandgötuna. „En það slasaðist enginn. Það er það mikilvægasta. Það er þessum góðu viðbrögðum að þakka.“

Aðeins er farið að rofa til á Eskifirði. Páll Björg­vin Guðmunds­son, bæj­ar­stjóri Fjarðabyggðar, segir að enn rigni þó töluvert og mikið vatn sé í lækjum og ám. „En nú vonum við að sólin fari að láta sjá sig.“

Hann segir mestu máli skipta í svona hamförum að fólk sé ekki í hættu. 

Jónas segir að lögreglan og aðrir viðbragðsaðilar verði enn í viðbragðsstöðu í dag. „En þetta lítur vel út í augnablikinu, árnar eru að verða hvítar á ný.“

Ræsi undir götum höfðu ekki við í vatnsveðrinu á Seyðisfirði …
Ræsi undir götum höfðu ekki við í vatnsveðrinu á Seyðisfirði í gærkvöldi. Ljósmynd/Hulda Ragnheiður
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert