Kaldir að segja fjölda flugmanna upp

„Við erum náttúrulega orðnir langþreyttir á þessu ástandi. Við höfum búið við þetta árum saman, að flugfélagið segir upp fólki á veturna vegna árstíðarsveiflu og vorum nú að vonast eftir því að í þetta skiptið myndi draga úr þessu því það er mikil eftirspurn eftir flugmönnum og allt eins víst að einhver hluti hópsins muni ekki snúa til starfa þegar félagið þarf á þeim að halda.“

Þetta segir Örnólfur Jónsson, formaður Félags íslenskra atvinnuflugmanna (FÍA), í samtali við mbl.is en Icelandair hefur sent að minnsta kosti 115 flugmönnum uppsagnarbréf. Þá verða 70 flugstjórar færðir niður í stöðu flugmanns. Samtals starfa um 520 flugmenn hjá félaginu. Icelandair segir ástæðuna útlit fyrir minni vöxt í starfsemi félagins næsta vetur.

Frétt mbl.is: Fleirum sagt upp í ár en í fyrra

„Við einfaldlega hörmum þetta. Það er ekkert hægt að segja annað,“ segir Örnólfur. Fjöldinn er meiri en í fyrra en hafa verði í huga í því sambandi að flugmönnum hefur fjölgað mikið. Hlutfallið af heildarfjöldanum sé nokkuð svipað eða í kringum 20-25%. Þetta sé í fyrsta sinn sem fjöldinn fari yfir eitt hundrað. Örnólfur segist telja forystumenn Icelandair kalda í ljósi aðstæðna.

„Mér finnst þeir vera nokkuð kaldir í ljósi þeirrar stöðu sem er á markaðinum þar sem eftirspurn eftir flugmönnum er eins mikil og raun ber vitni Þeir eru þarna beinlínis að bjóða öðrum flugfélögum upp á flugmenn með reynslu og þjálfun á silfurfati. Spurður um hvort einhverjir kunni að fara til WOW Air segir Örnólfur að svo kunni að vera.

„Ég hef heyrt af því en hef ekkert fast í hendi með það. En þeir eru að leita að flugmönnum og munu örugglega reyna að leita í þennan hóp enda um að ræða gæðahóp tilbúinn til starfa,“ segir Örnólfur. Ekki sé víst að það sé eins auðvelt og áður að segja flugmönnum upp og gera ráð fyrir að þeir komi aftur til starfa þegar flugvélagið þurfi á þeim að halda.

„Það eru dæmi um flugmenn sem hafa fengið átta uppsagnarbréf á síðustu ellefu árum. Þannig að menn eru orðnir langþreyttir á þessu. Það er ekki hægt að segja annað. Fólk getur verið ansi lengi að vinna sig upp í starfsöryggi. Það er nokkuð ljóst,“ segir hann. Nýjar kynslóðir flugmanna séu ekki að binda sig við Ísland og geti hugsað sér að starfa hvar sem er i heiminum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert