Mokuðu 70 tonnum af leðju úr húsinu

Húsin tvö á Seyðisfirði sem aurskriðan féll á í gærmorgun. …
Húsin tvö á Seyðisfirði sem aurskriðan féll á í gærmorgun. Hægra megin er húsið hans Dýra. Ljósmynd/Viðlagatryggingar Íslands

Búið er að moka leðjunni út úr húsinu að Strandavegi 27 á Seyðisfirði en húsið fylltist af leðju þegar aurskriða féll nærri húsinu í gærmorgun. Miklir vatnavextir voru á Austfjörðum fyrir helgi og er ástandið verst á Seyðisfirði. 

Húsið var byggt árið 1880 og segir Dýri Jónsson, eigandi þess, að það hendi oft að hlaup fari í lækinn eða skriður falli. Grjótið fer alltaf fram hjá húsinu en leðjan leki hins vegar inn í húsið. Hann hefur undanfarin ár gert það upp og hyggst dvelja þar þegar hann er á Seyðisfirði, en að hans sögn býr hann í bænum þar u.þ.b. sex mánuði á ári, en hann rekur m.a. hótel í bænum. 

„Það náðist lygilega mikill árangur í gær með hjálp vina sem mættu óumbeðnir í 66 gráður norður göllunum sínum og við mokuðum þetta allt út,“ segir Dýri. Hann segir leðjuna hafa verið 40 til 50 sentímetra háa og dreift sér jafnt yfir jarðhæðina.

Þriggja daga reglan slegin út af borðinu á nokkrum tímum

Dýri segir húsið hafa verið mannlaust þegar skriðan féll, enda hafi fólk gert sér grein fyrir því að þarna gæti fallið skriða. „Ég hef séð vatnavexti áður, en þetta var svo rosalega hratt. Lækurinn breyttist úr hvítum fallegum fossi í mórauðan beljandi foss. Þá ákvað ég að enginn skyldi sofa þarna. Þetta gerðist svo hratt,“ segir Dýri.

Hann segir Seyðisfirðinga oft tala um þriggja daga reglu, að ef það rigni mikið þrjá daga í röð megi búast við vandræðum, en í þetta skipti hafi hreinlega rignt svo mikið fyrstu klukkutímana að fólk sá strax í hvað stefndi. Úrkoman var einnig umtalsvert meiri yfir Suðurfjalli en Norðurfjalli, segir Dýri.

Dýri Jónsson.
Dýri Jónsson. Ljósmynd/Dýri Jónsson

„Ég hélt ég væri bara að fara að kíkja á aðstæður,“ segir Dýri um það þegar hann fór í húsið í gær. Hugðist hann moka frá hurðum og gera annað smálegt til að undirbúa moksturinn. „Ég bjóst aldrei við að við myndum klára þetta. Að þangað kæmi svona margt fólk og við næðum að moka 70 tonnum af leðju og skriðu innan úr húsinu.“

Hann segir að tryggingamál verði skoðuð betur á morgun, litlar skemmdir hafi orðið á húsinu að utanverðu en eins og gefur að skilja sé mikið tjón á innbúi og húsinu að innanverðu. Segir hann að varmadæla hafi t.a.m. lent undir leðjunni sem sé hugsanlega ónýt.

Lokuðu þremur herbergjum

Dýri rekur Hótel Ölduna á Seyðisfirði og flæddi aðeins inn í hótelið líkt og önnur hús í bænum. „Húsin sem standa við lónið taka við álaginu af bæði háflóðinu og ofankomunni. Ræsin gefa sig þegar þetta tvennt kemur saman og þá fer að flæða út um allt,“ segir Dýri. „Við vorum alltaf tilbúin með dælur á háflóðinu og tímunum í kringum það. Það kom mikið inn í fyrsta áhlaupinu og aðeins eftir það en þá ekki eins mikið,“ segir hann.

Rýma þurfti þrjú herbergi eftir að það flæddi inn í þau og var gestunum fundinn annar gististaður. Hann segir bæinn fullan af ferðamönnum sem hafi tekið því rólega á veitingahúsum bæjarins á meðan mesta úrhellið gekk yfir. Dýri á von á því að hægt verði að opna herbergin mjög fljótlega aftur en býst við að eitthvað þurfi þar að gera við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert