Ástin kviknaði í danstíma

Anaïs Barthe og Georg.
Anaïs Barthe og Georg. mbl.is/Árni Sæberg

Á Dansverkstæðinu í miðborg Reykjavíkur fer fram kennsla í kizomba, angólskum dansi sem á rætur sínar að rekja til samba og zouk úr Karíbahafi. Dansinn er upprunninn á níunda áratugnum en frá Angóla barst hann til Portúgal og síðan um alla álfuna. Hin franska Anaïs Barthe kynntist kizomba í heimalandinu. „Ég er samtímadansari og mætti oft á salsakvöld. Svo fór ég að heyra eitt og eitt kizomba-lag á salsakvöldunum og vissi ekkert hvaða tónlist þetta var.“ Hún ákvað að kanna málið og mæta á kizomba-danskvöld og þá varð ekki aftur snúið. Anaïs hefur kennt dansinn frá 2013, fyrst í Frakklandi. „Kizomba leyfir manni að ferðast mikið,“ segir hún. „Það eru hátíðir úti um allt.“ Árið 2015 kom Anaïs hingað til lands í boði salsaskólans Salsa Íslands til að kenna kizomba. Þar kynntist hún kærastanum sínum, Georg frá Brasilíu, sem hefur búið hér í tuttugu ár. Hún settist að hér og nú kenna þau kizomba saman.

Byrjendanámskeið fyrir alla

Blaðamaður leit við á byrjendanámskeiði sem haldið var um helgina. Anaïs segir dansinn vera fyrir alla. Auðvelt sé að ná grunninum og svo megi byggja ofan á og flækja þegar því hafi verið náð. Sumir á námskeiðinu séu dansarar fyrir, en alls ekki allir. „Sumir koma hingað og hafa lært salsa og aðra dansa. Ég segi þeim að leggja það sem þau kunna til hliðar. Þetta sé nýr dans. Komið með opinn hug.“

Það var óneitanlega hughreystandi fyrir blaðamann að lítil danskunnátta væri talin styrkur. Mikil nánd er í dansinum og andrúmsloftið vinalegt. „Ég reyni að færa nemendum mínum þessa ljúfu tilfinningu sem kemur þegar þú knúsar einhvern,“ segir Anaïs og má segja að það hafi tekist ágætlega.

Í gær lauk síðasta námskeiði vetrarins, en þeir sem hafa áhuga á að kynna sér suðræn spor í sumar geta fylgst með kizomba-kvöldum sem haldin eru á Kex hostel um það bil tvisvar í mánuði. Allar upplýsingar um þau má finna á Facebook-síðunni Kizomba Is Icelandic. Í september fer svo fram alþjóðleg kizomba-hátíð á Íslandi. Þangað eru væntanlegir 12 kennarar frá Portúgal, Svíþjóð, Mexíkó og víðar, og töluverður fjöldi nemenda. Að því loknu hefjast svo venjuleg námskeið að nýju.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert