Gutti er illa farinn en á bataleið

Gutti Diego er illa farinn í andliti.
Gutti Diego er illa farinn í andliti. Ljósmynd/Hafliði Kristinsson

Dýralæknir segir Gutta, sem týndist á flugvelli á Spáni nýverið, illa farinn af sýkingu, skordýrabitum, hrikalega horaðan og með slæma sveppasýkingu í andliti. Fjölskylda Gutta hafði samband við dýralækni sem kom fljótt til þeirra og kíkti á kisa. Gutti fékk sýklalyf, vítamín, augndropa og krem. „Hann er aðeins að braggast en hann verður alltaf með þetta stríðsör á andlitinu,“ segir Hafliði Kúld Kristinsson í samtali við mbl.is.

Málinu er ekki lokið

Hafliði segir fjölskylduna ekki hafa heyrt meira frá Primera og hefur fyrirtækið ekki tekið þátt í lækniskostnaði vegna Gutta. En það var í flugvél á vegum Primera sem Gutti týndist. „Þeir endurgreiddu leigubílakostnaðinn, sem er dropi í hafið miðað við allt,“ segir Hafliði.

„Málinu er langt frá því að vera lokið,“ segir Hafliði. Fjölskyldan er búin að setja sig í samband við lögmann á Spáni sem ætlar að taka mál Gutta að sér. Fyrst leituðu þau til lögmannsstofa á Íslandi en engin þeirra sem þau höfðu samband við tók málið að sér.

Hvar liggur ábyrgðin?

Næsta skref hjá fjölskyldunni er að fá það á hreint hver ber ábyrgð í þessu máli. Primera hefur gefið út að búrið sem Gutti var fluttur í hafi ekki staðist öryggiskröfur og op hafi verið á þaki búrsins sem ekki er hægt að læsa, þannig hafi Gutti sloppið.

„Af hverju vorum við send í þessa ferð með búr sem var óöruggt? Við vissum ekki af því,“ segir Hafliði. „Af hverju var ekki lokað fyrir opið? Þeir eru fagmenn,“ segir Hafliði og vísar þar til starfsmanna á flugvellinum í Keflavík.

Hafliði heldur því einnig fram að enginn hafi verið að leita að Gutta á flugvellinum í Alicante aðrir en fjölskyldan og par sem hafði séð auglýsingu um hvarf Gutta á spænskri Facebook-síðu. Hafliði segir Jeffrey, sem er sá sem fann Gutta, tilbúinn að votta þetta en hann starfar á bílastæði flugvallarins.

Frétt mbl: Fundinn eftir 16 daga leit 

Dýralæknir segir Gutta einstaklega blítt og fallegt dýr en illa …
Dýralæknir segir Gutta einstaklega blítt og fallegt dýr en illa farinn af sýkingu. Ljósmynd/Hafliði Kristinsson

Fengu mikla aðstoð frá kattasamfélaginu á Íslandi  

„Mest af öllu þakka ég fyrir allan þann stuðning og styrk sem við höfum fengið frá kattasamfélaginu,“ segir Hafliði og vísar þar til Facebook-hóps sem telur tæpa 17.000 félaga. Þar hafi kattavinir tekið höndum saman og aðstoðað fjölskylduna fjárhagslega og með öðrum hætti.

Félagar hópsins ýttu á Primera í byrjun að bregðast við og vill Hafliði meina að fjölskyldan hefði aldrei komist í gegnum þetta án stuðnings frá samfélaginu. Söfnun á vegum hópsins hafi svo greitt fyrir læknis- og lyfjakostnað fyrir Gutta.

„Við stöndum saman þegar á reynir, það er það sem gerir okkur að fólki,“ segir Hafliði og ítrekar hjartanlegar þakkir frá fjölskyldunni til kattasamfélagsins og bætir við að Halldóra, formaður kattasamfélagsins, hafi staðið með þeim alveg frá byrjun.

Verður líklega aldrei sá sami

Gutti er að braggast og er farinn að venjast umhverfinu og hljóðum betur en í byrjun. „Hann var að leika sér aðeins áðan og borðar ágætlega,“ segir Hafliði. Fjölskyldan tekur vaktaskipti með kisa til þess að passa upp á að alltaf sé einhver vakandi til þess að fylgjast með Gutta.

„Við erum náttúrulega enn þá þreytt og mesta áfallið er að fara úr okkur,“ segir Hafliði en Gutti var týndur í 16 daga og tók þessi tími mjög mikið á fjölskylduna, andlega og líkamlega. „Það er náttúrulega kraftaverk að hann hafi fundist eftir allan þennan tíma, og í hitabylgju,“ segir Hafliði af lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert