„Algjörlega út úr kortinu“

mbl.is/Sigurður Bogi

Nýir flugmenn sem skrifa undir samning hjá Icelandair skrifa einnig upp á skuldabréf að andvirði 60 þúsund evrur, 7 milljónir íslenskra króna. Þar með skuldbinda þeir sig til þess að yfirgefa ekki Icelandair næstu þrjú árin, nema þeir greiði andvirði skuldabréfsins. Aftur á móti getur Icelandair sagt þeim upp en 115 flugmönnum var sagt upp um helgina.

„Þetta er nýbreytni hjá þeim en þeir byrjuðu á þessu í vor. Við höfum gert athugasemdir við þetta og viljum meina að þetta gangi ekki upp vegna þess að það fylgir þessu ekki samfelld vinna,“ segir Örn­ólf­ur Jóns­son, formaður Fé­lags ís­lenskra at­vinnuflug­manna (FÍA), í samtali við mbl.is.

Hann bendir á að fólk sé að skuldbinda sig hjá Icelandair en því sé ekki boðin samfelld vinna, engin skuldbinding sé um að fólk haldi vinnu þar í þrjú ár. „Við höfum gert athugasemdir við þetta og óskað eftir því að þetta verði dregið til baka. Gangi það ekki eftir munum við fara með þetta fyrir héraðsdóm.“

Örnólfur segir að þetta þekkist í flugheiminum; að fólk bindi sig á móti þegar lagt er út í þjálfunarkostnað. „Yfirleitt fylgir því þá að vinna er í boði. Þegar það er ekki einu sinni vinna í boði nema hluta úr tímabilinu teljum við þetta algjörlega út úr kortinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert