Ástandið orðið betra en fyrir hrun

Mari Kiviniemi, aðstoðarframkvæmdastjóri Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD).
Mari Kiviniemi, aðstoðarframkvæmdastjóri Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD). mbl.is/Eggert Jóhannesson

Niðurstöður Efnahags- og framfarastofnunar eru þvert á það sem þingmenn minnihlutans hafa haldið fram í pontu Alþingis, segir Benedikt Jóhannesson. Ísland kemur mjög vel út í nýrri skýrslu stofnunarinnar og gildir einu hvort miðað sé við önnur OECD-ríki eða Norðurlöndin. Hagvöxtur mælist hvergi meiri innan OECD-ríkjanna en á Íslandi, jöfnuður er hér mestur sé litið til tekna einstaklinga, jöfnuður milli kynjanna mestur og fátækt hvergi minni en á Íslandi.

Þá hafa Íslendingar það betra í dag en þeir gerðu fyrir fjármálahrun að sögn Mari Kiviniemi, aðstoðarframkvæmdastjóra OECD, sem sagði það einstaklega skemmtilegt að vera stödd á Íslandi í ljósi þess viðsnúnings sem hafi átt sér stað í rekstri þjóðarbúsins frá hruni. Hún segir ferðaþjónustuna augljóslega spila þar stórt hlutverk, en stofnunin leggur til að Íslendingar taki upp aðgangsstýringu með gjaldtöku á fjölsóttum ferðamannastöðum og færi ferðaþjónustuna í almennt virðisaukaskattþrep.

Frá blaðamannafundinum í fjármálaráðuneytinu í morgun. Skýrslan sem OECD kynnti …
Frá blaðamannafundinum í fjármálaráðuneytinu í morgun. Skýrslan sem OECD kynnti í morgun er aðeins gerð á tveggja ára fresti. Ísland kemur þar mjög vel út samanborið við öll OECD-ríkin eða bara Norðurlöndin. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Benedikt Jóhannesson benti þó á það á kynningunni í dag að margt mætti betur gera hér á landi, og ætti ekki síst að horfa til þess sem þurfi að laga frekar en aðeins þau atriði sem séu í góðu lagi. Nefnir hann að árangur menntakerfisins og nýsköpun sem dæmi en ekki var farið nánar út í fyrrgreind atriði í kynningunni.

Staðan allt önnur í dag en fyrir hrun

Kiviniemi sagði stöðuna einnig allt aðra á Íslandi í dag en fyrir hrun. Skuldastaða heimilanna sé allt önnur og betri í dag en fyrir hrun, Ísland greiði hratt niður skuldir og vel hafi tekist til við afnám gjaldeyrishafta. Ekki stafi lengur hætta af aflandskrónueigendum.

Hún segir þó að taka þurfi á ýmsu til þess að koma í veg fyrir annað hrun. Lítil hagkerfi eins og Ísland séu viðkvæm fyrir breyttum aðstæðum og hagsveiflur því miklar. Hvetur stofnunin því til aukins aðhalds í ríkisfjármálum en Kiviniemi bendir á að útgjöld ríkisins hafi aukist þrátt fyrir þenslu í hagkerfinu. Eins leggur OECD til að Seðlabanki Íslands verði tilbúinn að herða á peningastefnunni til að draga úr þenslu.

„Margar þjóðir myndu öfundar okkur af árangrinum“

Benedikt sagði góðan árangur hafa náðst á undanförnum árum. „Margar þjóðir myndu öfunda okkur af þeim árangri sem hefur náðst. Og ríkisstjórnin leggur mikla áherslu á að viðhalda stöðugleikanum,“ segir Benedikt. „Minnst spennandi verkefni í heimi, að viðhalda góðu ástandi, en kannski eitt það erfiðasta eins og við höfum séð í gegnum tíðina.“

Benedikt Jóhannesson, fjámála- og efnahagsráðherra.
Benedikt Jóhannesson, fjámála- og efnahagsráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Hér á landi hafa laun hækkað meira en víðast hvar annars staðar. Húsnæðisverð hækkað, verðbólga er lág en með hærri vexti en víða,“ sagði Benedikt og bendir á að ekkert ríki heimsins sé með hærri frumjöfnuð en Ísland, það er afgangur í ríkisfjármálum fyrir vaxtagreiðslur.

Ríkissáttasemjari fái meiri völd

OECD bendir á að lífskjör séu góð á Íslandi, fátæktin lítil og lífeyriskerfið sjálfbært. Vel hafi tekist að vernda lægst launuðu hópana á krepputímum en verkföll ýmissa starfsstétta og miklar launahækkanir hafi aukið verðbólguþrýsting og ógnað alþjóðlegri samkeppnishæfni landsins. 

Því skipti máli að efla traust meðal aðila á vinnumarkaði. Til að tryggja slíkt traust þurfa allir aðilar að taka virkan þátt í Þjóðhagsráði og semja um svigrúm til launahækkana í upphafi hverrar samningalotu og halda sig innan þess.

Þá leggur stofnunin til þess að ríkissáttasemjara verði falin aukin völd, þ.e. að hann geti frestað aðgerðum á vinnumarkaði til að gefa viðsemjendum aukinn tíma til að ná samningum. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert