Bátlaus sundmaður leitar báts

Jón Eggert Guðmundsson hefur bæði gengið og hjólað strandveginn umhverfis …
Jón Eggert Guðmundsson hefur bæði gengið og hjólað strandveginn umhverfis Ísland og stefnir nú á að synda í kringum landið. mbl.is/Brynjar Gauti

Jón Eggert Guðmundsson varð fyrir því óláni að bæði aðal- og varabáturinn, sem hann hafði fengið fyrir verkefni sitt Íslandssund, eru bilaðir. Bátinn þarf Jón til þess að fylgja sér þar sem hann ætlar að synda hringinn í kringum Ísland.

Sundmaðurinn Jón er sjálfur tilbúinn í verkefnið en kemst ekki af stað fyrr en hann fær bát. „Ef einhver á bát og er tilbúinn til þess að elta mig þá væri það frábært,“ segir Jón í samtali við mbl.is, nýkominn af sundæfingu í Skerjafirði.

Jón segir það ekki skipta máli hvar á landinu báturinn er staðsettur. Hann hugðist leggja af stað strax 1. júlí en óvíst er að hann nái því sökum bátleysisins.

Jón vonast til þess að finna bát sem fyrst en veðurskilyrði til sundsins eru best í júlímánuði. „Ég er með allar krumlur úti og það gæti eitthvað dottið inn á næstu dögum,“ segir Jón vongóður.

Eigir þú bát fyrir verkefni sundkappans má hafa samband við Jón í síma 696-1311.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert