Segir galið að taka þyrluflugið frá Gæslunni

Stjórnendur Landhelgisgæslunnar eru mótfallnir hugmyndum fagráðs um sjúkraflutninga um að …
Stjórnendur Landhelgisgæslunnar eru mótfallnir hugmyndum fagráðs um sjúkraflutninga um að færa rekstur sjúkraflugs til nýrrar sérstakrar stofnunar. Betra sé að byggja upp núverandi þyrlustarfsemi Landhelgisgæslunnar. mbl.is/Árni Sæberg

Landhelgisgæslan er mótfallin hugmyndum fagráðs um sjúkraflutninga um að færa flugrekstur ríkisins undir sérstaka flugrekstrarstofnun. Fagráðið kynnti í gær skýrslu sína um sjúkraflutninga þar sem lagt var til að fengin yrði ný sérstök sjúkraþyrla til þess að sinna 300 til 600 útköllum árlega á Suðurlandi og Vesturlandi.

Tillögur fagráðsins fela í sér miklar breytingar á því hvernig skipulagi sjúkraflutninga er háttað, en í dag eru aðeins um 130 sjúklingar fluttir með þyrlu á sjúkrahús á hverju ári.

Auðunn Kristinsson, verkefnastjóri á aðgerðasviði Landhelgisgæslunnar, segir Landhelgisgæsluna fagna allri umræðu um aukið þyrlusjúkraflug. Þar á bæ fylgist menn vel með þróuninni í nágrannaríkjum Íslands og sjúkraflutningar þróaðir í takt við tímann. Hins vegar gagnrýnir hann að ekkert samráð hafi verið haft við Gæsluna við gerð skýrslunnar þrátt fyrir að stofnunin hafi sinnt björgunar- og sjúkraflugi í 30 ár.

Auðunn Kristinsson, verkefnastjóri á aðgerðasviði Landhelgisgæslunnar.
Auðunn Kristinsson, verkefnastjóri á aðgerðasviði Landhelgisgæslunnar. mbl.is/Ómar Óskarsson

Tekst ekki að manna allar vaktir vegna fjárskorts

„Við teljum að hægt sé að tryggja leit og björgun á sjó, en líka tryggja sjúkraflutninga á landi fyrir lægri upphæð en lögð er til í skýrslunni,“ segir Auðunn en árlegur rekstrarkostnaður nýrrar sjúkraþyrlu er áætlaður 650 milljónir króna í skýrslunni.

„Í fimm ára fjármálaáætluninni lögðum við til að fjármunir okkar yrðu auknir um 550 milljónir króna þannig að það mætti bæta við tveimur áhöfnum,“ segir Auðunn en beiðni Gæslunnar var hafnað.

Áhafnir Landhelgisgæslunnar eru í dag fimm, en þurfa að vera sjö til þess að hægt sé að manna vaktakerfið. Alltaf þurfa að vera tvær áhafnir til taks en það næst ekki að manna allar vaktir vegna fjárskorts, segir Auðunn.

Verkefni Landhelgisgæslunnar snúa fyrst og fremst að leit og björgun …
Verkefni Landhelgisgæslunnar snúa fyrst og fremst að leit og björgun á hafi. mbl.is/Árni Sæberg

Fagráðið mælti með því að sjúkraflug með þyrlu yrði undir sérstakri stofnun þar sem meginhlutverk Landhelgisgæslunnar er leit og björgun á sjó. „Auðvitað er hlutverk Gæslunnar að sinna leit og björgun á hafi. En í dag eru 70 til 80 prósent útkalla okkar inn á land. Stór hluti þess er sjúkraflug og með því að efla núverandi rekstur mætti stunda sjúkraflutninga í meiri mæli í þyrlunum okkar,“ segir Auðunn.

Allt spurning um fjármögnun og pólitískan vilja

Auðunn segir að Landhelgisgæslan sé mjög áhugasöm um aukið sjúkraflug, og hugsanlega að bæta við nýrri sjúkraþyrlu. Þetta sé allt bara spurning um fjármögnun og pólitískan vilja. Þegar Landhelgisgæslan fór síðast í endurnýjun á þyrluflotanum fór fram samtal milli stofnunarinnar og stjórnvalda um aukið sjúkraþyrluflug.

Stjórnvöld höfðu þá ekki haft áhuga á slíku og því voru kaup á sérstakri sjúkraþyrlu ekki skoðuð frekar. Líkt og fram kom í frétt mbl.is um þetta mál í gær eru sjúkraþyrlurnar léttari og ódýrari í kaupum og rekstri en björgunarþyrlurnar sem aftur á móti eru langdrægari, geta flogið við erfiðari aðstæður og búnar afísingarbúnaði og nætursjónauka svo dæmi sé tekið.

Fagráð um sjúkraflutninga leggur til að sérstök sjúkraþyrla verði prófuð …
Fagráð um sjúkraflutninga leggur til að sérstök sjúkraþyrla verði prófuð í eitt til tvö ár á Suðurlandi og Vesturlandi. Áætlaður árlegur fjöldi útkalla er á bilinu 300 upp í 600. mbl.is/Golli

„Ef ákveðið verður að auka sjúkraflutninga á landi er ekkert mál að bæta við nýrri þyrlu með lítilli fyrirhöfn. Það er miklu praktískara en að búa til nýja stofnun,“ segir Auðunn og bætir við að Gæslan vilji mjög að þyrlurekstur verði efldur svo hægt sé að sinna fólki til sjós og lands. Að ætla að stofna nýja stofnun um flugrekstur sé aftur á móti galin hugmynd.

Þá segir hann þyrlunar vel búnar lækningatækjum þrátt fyrir að þar sé ekki sjúkrastell og búnaðurinn þar af leiðandi ekki eins aðgengilegur og í sérútbúinni sjúkraþyrlu. „Við erum með öndunarvél, vöktunarbúnað og vel búin lækningatækjum,“ segir hann.

Spurður hvort Gæslan myndi bæta við sjúkraþyrlu ef ákveðið yrði að auka sjúkraflug og fela Gæslunni framkvæmd þess segir hann Gæsluna til í að skoða allt. „En það væri hægt að sinna þessu ansi vel á núverandi vélakosti,“ segir Auðunn. Hann segir Landhelgisgæsluna einnig fylgjandi því að önnur björgunarþyrlan verði á Austfjörðum til að stytta viðbragðstímann þar. Þá er Gæslan einnig á því að færa aðra vaktina af bakvakt á staðarvakt til þess að stytta viðbragðstíma þyrlanna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert