Veðurtepptir kajakræðarar

Natalie Maderova og Michal Madera við kajakana sína í fjörunni …
Natalie Maderova og Michal Madera við kajakana sína í fjörunni við Fossá (tjaldið í baksýn). mbl.is/Líney Sigurðardóttir

Það kom á óvart á Jónsmessunni að sjá ofurlítið rautt tjald alveg niðri við fjöruborð hjá Fossá, rétt innan við Þórshöfn og við beljandi, vatnsmikla ána var íbúi tjaldsins að bursta tennurnar á laugardagsmorgni.

Tjaldbúarnir voru tékkneskir Lundúnabúar, kajakræðararnir Natalie Maderova og Michal Madera, sem lögðu af stað frá Reykjavík í siglingu umhverfis Ísland fyrri hlutann í maí. Til Þórshafnar kom parið í byrjun síðustu viku en veður og vindar kyrrsettu þau og því tjölduðu þau í fjörunni við kajakana sína og biðu eftir hagstæðu veðri, sem síðan kom á sunnudag. Á meðan lásu þau bækur, uppfærðu vefsíðu sína um ferðalagið, sixknots.net og eyddu drjúgum tíma í íþróttahúsinu. Þau náðu líka að skoða sig um á Langanesi og voru afar ánægð með það.

Mögnuð ferð

„Við vorum svo heppin að mæta ferðafólki á bíl, sem bauð okkur með út á Langanes, út í Skálar og við sáum á leiðinni stórkostlega útsýnispallinn á Skoruvíkurbjörgum, þetta var mögnuð ferð,“ sögðu Natalie og Michal.

Þau undirbjuggu Íslandsferðina í nokkurn tíma og eru sammála um að andlegur undirbúningur sé mikilvægastur. Þau hafa aðeins þrisvar á öllu ferðalaginu leyft sér þann munað að kaupa gistingu og hafa látið litla Husky-tjaldið duga. Þau fengu leiðindaveður við Vestfirði, einnig var mjög kalt við Flatey á Skjálfanda. Seinast gistu þau á hóteli á Raufarhöfn eftir langa og stranga siglingu í kalsaveðri, en mótvindur hefur gert þeim lífið leitt stóran hluta siglingarinnar. „Björtu næturnar hérna auðvelda okkur þó lífið, við getum verið á ferðinni hvenær sem er sólarhringsins og besta veðrið er oft á nóttunni!“

Aðspurð segjast þau fjármagna ferðalög sín með því að leigja út íbúðina sína í London. „Þegar vinirnir héldu að ég væri að undirbúa mig fyrir siglinguna með lyftingum og líkamsrækt var ég að hamast við hreingerningu á íbúðinni okkar fyrir útleiguna,“ sagði Natalie hlæjandi, en hún er kennari og Michal vinnur við byggingar og smíði. Þau segja Ísland vissulega dýrt heim að sækja og allt sé um helmingi dýrara á veitingahúsum hér en í Bretlandi en hingað hafi þau langað að koma.

En hvernig kemur þeim lífið fyrir sjónir hér í litlu sjávarþorpi? Natalie og Michal hlæja bæði þegar þau fá þessa spurningu. „Við erum eiginlega mest hissa á því hvað það er mikið um bíla hér. Þeir eru stöðugt á ferðinni fram og til baka, oft sömu bílarnir aftur og aftur, snúa svo við og eftir smástund eru þeir komnir aftur, fólk virðist eyða miklum tíma í bílunum sínum!“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert