23 þúsund pennar á 11 árum

Þröstur Ingi Guðmundsson pennasafnari, en hann hefur safnað rúmlega 23 …
Þröstur Ingi Guðmundsson pennasafnari, en hann hefur safnað rúmlega 23 þúsund pennum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ég ætlaði aldrei að byrja að safna,“ segir Þröstur Ingi Guðmundsson pennasafnari, en hann hefur safnað rúmlega 23 þúsund pennum og skráir þá alla skilmerkilega.

Söfnun Þrastar hófst árið 2006 þegar hann tók yfir söfnun bróður síns eftir lát hans.

„Bróðir minn vildi að einhver tæki við safninu en enginn hafði tíma og pláss. Ég tók þetta því að mér. Þetta barst bara eins og eldur í sinu um heimsbyggðina, ég fékk senda penna alls staðar að, til dæmis frá Danmörku, Svíþjóð og Japan.“

Þröstur segist aldrei hafa tekið penna sjálfur. „Þetta er allt utanaðkomandi, fólk hefur sent og gefið mér alla þá penna sem ég á ásamt safninu sem ég tók við af bróður mínum.“

Reyndar eru pennar ekki það eina sem Þröstur safnar, því hann segist einnig hafa söfnunaráráttu fyrir t.d. flottum vínfleygum og kveikjurum.

Tekur skelfilega mikið pláss

„Pennarnir eru alls staðar að úr heiminum og eru mér margir mjög kærir,“ segir Þröstur og bætir við að margir þeirra séu einstakir.

Allir pennarnir eru skráðir í stílabók eftir stafrófsröð. „Ég skrái litinn á pennanum og hversu marga ég á af ákveðinni tegund,“ segir Þröstur. Pennarnir eru geymdir í kössum og veskjum. „Þetta tekur alveg skelfilega mikið pláss.“

Þröstur dæsir er hann er spurður hvað hann hafi eytt miklum tíma í pennasöfnunina en nefnir þó að það myndi taka um tvo mánuði að endurskrifa alla skráninguna. „Það hefur ekki enn gefist tími til þess.“

Hann segir marga hafa áhuga á að skoða safnið hans og bætir við að hann hafi gaman af söfnuninni.

Hefur aðeins keypt einn penna

„Það koma alltaf reglulega til mín nokkrir pennar,“ segir Þröstur en hann á marga vini sem safna fyrir hann. „Það er bara einn penni sem ég hef keypt og það er sá eini sem ég nota,“ segir Þröstur en það er penni sem er til styrktar Bláa naglanum.

Þröstur segist ekki hafa íhugað að gefa safni pennana en nefnir að í Kolaportinu séu plastpennar seldir á 25 kr. og þyngri pennar á 100 kr. „Það er fljótt að telja.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert