30,7 milljónum veitt í bráðaviðgerðir

148 útilistaverk eru í eigu borgarinnar og ber Listasafn Reykjavíkur …
148 útilistaverk eru í eigu borgarinnar og ber Listasafn Reykjavíkur ábyrgð á þeim verkum. mbl.is/Þorkell Þorkelsson

Borgarstjórn Reykjavíkur samþykkti í gær að veita alls 30,7 milljónum króna í bráðaviðgerðir á útilistaverkum í eigu Reykjavíkurborgar. Verkin sem ráðast á í viðgerðir á eru í umsjá Listasafns Reykjavíkur og hefur forvörður á vegum safnsins lagt mat á ástand verkanna.

Áætlaður kostnaður vegna sérfræðivinnu og bráðaviðgerða í ár nemur tæpum 15,7 m.kr. Þá skal næstu þrjú árin veita 5 m.kr. árlega, alls 15 m.kr. til áframhaldandi viðgerða sem vísar til fjárhagsáætlunargerðar ársins 2018 og fimm ára áætlunar.

Skráð útilistaverk í Reykjavík eru alls 183 en þar af eru 148 í eigu borgarinnar og ber Listasafn Reykjavíkur ábyrgð á þeim verkum. Samkvæmt mati forvarðar eru einkum 11 verk sem brýnt er að laga og bæta sem fyrst, auk þess sem hreinsa þarf stöpla í garði Ásmundarsafns, bæta merkingar og fleira.

Á fundi menningar- og ferðamálaráðs þann 12. júní sl. kynntu Ólöf Kristin Sigurðardóttir, safnstjóri Listasafns Reykjavíkur, og Sigurður Trausti Traustason, deildarstjóri safneignar og rannsókna, viðhaldsþörf útilistaverka í Reykjavík. Þar kom fram að brýnt er að ráðast í lagfæringar á nokkrum útilistaverkum í eigu Reykjavíkurborgar á þessu ári og enn fremur að auka framlög til áframhaldandi bráðaviðgerða og almenns reglubundins viðhalds á næstu árum.

Í kjölfar þess lögðu borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins fram tillögu um viðgerð og endurbætur útilistaverka á borgarstjórnarfundi þann 20. júní sl. sem vísað var til afgreiðslu borgarráðs.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert